Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2013 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Oslo Seafood Seminar haldin í Osló 14. nóvember 2013


Í dag flutti Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra ræðu á „Oslo Seafood Seminar“ sem haldið var í Osló á vegum norsk-íslenska viðskiptaráðsins, þar sem hann var heiðursgestur.

Ráðherra fór yfir þá brýnu þörf sem blasir við heiminum vegna aukinnar matvælaframleiðslu og hvernig nýta megi, á ábyrgan hátt, auðlindir hafsins til þessa. Þarna sé tækifæri fyrir Íslendinga og Norðmenn með sínar ríku auðlindir hafsins til að móta sameiginlega stefnu.

Í ræðu sinni fór ráðherra yfir mikilvægi sjávarútvegs á Íslandi og helstu hagstærðir þar að lútandi. Hann vísaði til þess árangur sem hefur náðst með kvótakerfinu en jafnframt hvernig skapast hefur ósætti um eignarrétt á auðlindum sjávar og greiðslur fyrir aðganginn. Sigurður Ingi fór yfir leiðir sem unnið er að á innanlandsvettvangi og hann hyggst leggja fyrir Alþingi til að leysa þennan ágreining; innleiðingu samningaleiðarinnar svo kölluðu þar sem skýrt verður kveðið á um að auðlindin sé í eigu þjóðarinnar. En útgerðin hafi leigurétt á aflaheimildum til tiltekins tíma, með skýrum framlengingarákvæðum, og greiði fyrir það gjald. Hann greindi frá því að hann ætli að leitast við að ná sem mestri sátt um sjávarútveginn, sátt við atvinnugreinina, á milli borgar og dreifðari byggða landsins og ekki síst, en þar er kannski þyngst undir fæti; pólitískri sátt.

Ráðherra rakti jafnframt að kvótakerfið er síður en svo gallalaust. Það hafi leitt til samþjöppunnar aflaheimilda þannig að hámark hafi verið sett á handhöfn aflaheimilda í því skyni að sporna við frekari samþjöppun. Á sumum stöðum í kringum landið hefur afleiðing framseljanlegra aflaheimilda verið neikvæð byggðaþróun og leitað hafi verið ýmissa leiða til að bæta það upp. Þá fór ráðherra yfir mikilvægi hafrannsókna og hvernig umhverfissjónarmið hafa haft áhrif á þróun fiskveiðistjórnunar.

Ekki er hægt að flytja ræðu á norskri grundu án þess að koma inn á deiluna um makrílinn en Noregur er eitt þeirra ríkja sem að deilunni koma. Ráðherra fór yfir það magn sem ætlað er að makríllin éti á meðan hann dvelst í íslenskri lögsögu, um 3 milljónir tonna, og spurði fundinn hvort ekki væri eðlilegt að senda reikning fyrir slíkri máltíð? Viðfangsefnið væri hversu hár hann ætti að vera. Tækifærið til samninga hafi aldrei verið betra en það er núna og hann vonast til að það verði nýtt til farsællar niðurstöðu þar sem allir deiluaðilar leggi sitt af mörkum.

Að lokum lýsti ráðherra yfir vilja sínum til að auka samstarf á milli Íslands og Noregs á sviði sjávarútvegs með það að leiðarljósi að nýta þau tækifæri sem framundan eru í matvælaframleiðslu.

Hér má sjá ræðu ráðherra.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira