Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Verkefni flutt frá ráðuneyti

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi á Alþingi sem felur í sér flutning verkefna frá innanríkisráðuneytinu til undirstofnana. Frumvarpið er liður í áformum ráðherra að bæta þjónustu, auka skilvirkni og færa framkvæmd verkefna nær almenningi.

Greining á kjarnastarfsemi ráðuneytisins og verkefnum sem ráðuneytið sinnir lögum samkvæmt leiddi í ljós að betri samlegð og skilvirkni næst með flutningi verkefna til stofnana ráðuneytisins sem búa yfir mikilli fagþekkingu og vinna nú þegar að tengdum verkefnum. Þá er sérstaklega miðað við það að styrkja sýslumannsembættin með flutningi verkefna til þeirra og auka um leið þjónustu ríkisins í héraði.

Í frumvarpinu er meðal annars gert ráð fyrir því að Útlendingastofnun taki yfir umsjón við veitingu ríkisborgararéttar en að kæruleið myndist til ráðuneytisins. Þá má finna ákvæði um að Fangelsismálastofnun ákveði hvort fullnusta eigi dóma hér á landi sem kveðnir hafa verið upp á Norðurlöndunum, en Fangelsismálastofnun er sú stofnun sem raðar niður í fangelsins, ber ábyrgð á fullnustu refsinga og er þannig betur í stakk búin til að meta þær beiðnir sem berast frá hinum Norðurlöndunum.

Í frumvarpinu er sem fyrr segir gert ráð fyrir því að færa í auknum mæli verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna og efla þannig þjónustu ríkisins í héraði. Þannig er meðal annars lagt til að sýslumönnum verði falið að annast leyfisveitingar til opinberra fjársafnana, að sýslumönnum verði falið að skera endanlega úr um sérstök framlög vegna framfærslu barna, umsýsla með málefnum lögmanna flyst, s.s. leyfisveitingar til lögmanna, geymslu og endurútgáfu óvirkra lögmannaleyfa, vottorð um að héraðsdómslögmaður sem uppfyllir skilyrði til að megi þreyta prófraun í Hæstarétti og umboð til að fella niður lögmannsréttindi þegar það á við. Samhliða þessari yfirfærslu verkefna myndast kæruleið til ráðuneytisins. Samkvæmt frumvarpinu verður sýslumönnum einnig falin skráning og eftirlit með trúfélögum og lífsskoðunarfélögum, taka ákvarðanir um kvaðabindingu eða niðurfellingu á kvöð um arf og halda málaskrá yfir mál tengd lögræðislögum.

Samhliða því að færa verkefni frá ráðuneytinu til undirstofnana er jafnframt áformað að auka sérhæfingu og verkaskiptingu á meðal þeirra. Þannig er gert ráð fyrir að ákveðnum sýslumannsembættum verði falin afgreiðsla mála í stað þess að sams konar mál séu afgreidd hjá mörgum embættum. Stefnt er að því að aukið hagræði náist með þessu og þannig hraðari afgreiðslu fyrir borgara landsins.

Framangreindum breytingum er ýmist ætlað að taka gildi 1. janúar eða 1. apríl 2014. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira