Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra ávarpaði kirkjuþing

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti í morgun ávarp við setningu kirkjuþings. Ráðherra tilkynnti þar að skipaður verði starfshópur um fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju og hefur Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrverandi ráðherra, verið skipuð formaður hans. Starf hópsins á að byggjast á ákvæði í samningi svonefnds kirkjujarðasamkomulags og hins vegar á lögum um sóknargjöld.

Innanríkisráðherra ávarpaði kirkjuþing í morgun.
Innanríkisráðherra ávarpaði kirkjuþing í morgun.

Í upphafi máls síns kvaðst ráðherra hafa á fyrstu mánuðum sínum sem ráðherra kirkjumála hafa rætt við og átt góð, upplýsandi og uppbyggileg samskipti við fulltrúa þjóðkirkjunnar og að hún vænti áframhaldandi góðs samstarfs um mikilvæg mál fyrir íslenskt samfélag. Biskup Íslands hefði gert sér grein fyrir fjárhagslegum málum kirkjunnar á fyrstu dögum sínum í embætti ráðherra og hefði hún í framhaldi af því ákveðið að skipa fyrrgreindan starfshóp.

,,Þetta er mikilvægur starfshópur og ég bind miklar vonir við að í framhaldi af vinnu hans náum við að móta stefnu til framtíðar sem tryggir sjálfbærni í fjármálum kirkjunnar,“ sagði ráðherra.

Þá vék ráðherra að viðræðum við Prestafélag Íslands um nýja gjaldskrá fyrir aukaverk presta. Kvaðst hún ekki hafa verið tilbúin til að fallast á tilllögu presta um mikla hækkun á gjaldskránni þó svo að hún skildi sjónarmið og rökstuðning félagsins.

,,Ég hef þó í framhaldinu óskað eftir viðræðum um breytt fyrirkomulag, enda tel ég ekki eðlilegt að ráðherra ákveði slíka gjaldskrá. Í mínum huga kemur til greina að afnema lögin sem um þetta gilda, enda hefur margt breyst frá því að þau voru samþykkt fyrir rúmum 80 árum.“

Þá fjallaði ráðherra um sóknargjöldin og sagði hún marga innan kirkjunnar hafa gert sér rækilega grein fyrir skerðingu þeirra umfram aðra. Sagði ráðherra ekki sanngjarnt að gera þá kröfu til núverandi ríkisstjórnar að hún leiðrétti þessa umframskerðingu sem núverandi ríkisstjórn bæri ekki ábyrgð á strax og í einu skrefi en ráðherra sagði það vilja sinn að nota komandi misseri til að ná sátt við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög um þessi mál.

,,Eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi næsta árs munu sóknargjöldin hækka um rúmar 65 milljónir króna á næsta ári umfram verðlag. Það er ekki sjálfgefið í núverandi árferði en við fjármálaráðherra komumst að þeirri niðurstöðu að leggja þetta til. Þetta er mikilvægt fyrsta skref og eins og ég sagði vil ég gjarnan að við stöndum upp frá þessu verkefni á næstu misserum sátt við þá niðurstöðu sem þá liggur fyrir.“

Innanríkisráðherra fjallaði einnig um gildi og hlutverk kristinnar trúar og þá þróun að sum sveitarfélög og sumir stjórnmálamenn hefðu talið það forgangsverkefni að færa trúna, boðskað hennar og áherslur eins langt frá æsku þessa lands og mögulegt væri.

Um þetta sagði ráðherra: ,,Ég er ekki sammála þeirri stefnu og það segi ég ekki bara sem stjórnmálamaður – heldur miklu frekar sem móðir tveggja barna á grunnskólaaldri. Á sama tíma og börnin okkar kynnast flestu ef ekki öllu sem gerist í samfélaginu; heimsækja reglulega á vegum skólans fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, fá í heimsókn boðbera ólíkra sjónarmiða í skólana sína, að þvi ógleymdu að dvelja flest óáreitt langdvölum í netheimum – er Gídeonfélagið hins vegar sett á bannlista samhliða því sem af alvöru er rætt um að heimsóknir barna í kirkjur landsins, einstaka Faðir vor eða jólasálmar geti skaðað æsku þessa lands. Á ögurstundum í lífi þessarar þjóðar getur það varla verið forgangsmál að forða börnunum okkar frá boðskap um kristni og kærleika – enda hlýtur skólastarf nútímans að eiga að einkennast af fjölbreytni, vali og trú á því að einstaklingarnir sjálfir fái með fræðslu og upplýsingu tækifæri til að móta sínar lífskoðanir, trú og sannfæringu.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira