Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Þurfum að íhuga ábyrgð okkar í umferðinni

Minnst var þeirra sem látist hafa í umferðarslysum með athöfn við bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi í dag þar sem innanríkisráðherra flutti ávarp og tveir sem hafa komið við sögu í umferðarslysum og afleiðingum þeirra deildu reynslu sinni. Minnst var látinna með einnar mínútu þögn og um leið var þeim starfsstéttum þakkað sem sinna viðbrögðum og meðferð fólks vegna umferðarslysa.

Innanríkisráðherra flutti ávarp við athöfnina í morgun.
Innanríkisráðherra flutti ávarp við athöfnina í morgun.

Efnt er til hliðstæðrar athafnar víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem um árabil hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Landsmenn eru hvattir til að nota þennan dag til að leiða hugann að minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni, íhuga þá ábyrgð sem hver og einn ber sem þátttakandi í umferðinni og þakka þeim starfsstéttum, svo sem lögreglu, Landhelgisgæslu, björgunarsveitum og heilbrigðisstéttum sem ávallt eru á vakt og tilbúin að bregðast við þegar slys verður.

Fulltrúar viðbragðsaðila og heilbrigðisstétta voru við athöfnina.

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á þyrlupallinum við spítalann og jafnframt var stillt upp lögreglubíl, sjúkrabíl, slökkvibíl og björgunarsveitarbíl en athöfnin fór fram við þyrlupallinn.

Athöfnina setti Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneyti, og sagði hún meðal annars að umferðarslys og banaslys í umferðinni væru hryllilegur veruleiki í nútímaþjóðfélagi. Þrátt fyrir forvarnir, aðgerðir, upplýsingar og áróður væri eins og slysin kæmu alltaf á óvart með sínum hörmulegu afleiðingum. Jafnframt þakkaði hún fulltrúum viðbragðsaðila og heilbrigðisstétta fyrir þeirra þátt í að sinna slysum og slösuðum.

Þá flutti Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarp og sagði tilgang dagsins skýran: ,,Að hvetja okkur öll til að leiða hugann að minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni og jafnframt íhuga þá ábyrgð sem hvert og eitt okkar ber í umferðinni. Á Íslandi hafa tólf einstaklingar látist í umferðarslysum það sem af er þessu ári. Sum ár hefur umferðin tekið fleiri mannslíf, sum ár færri. Við vitum að hvert einasta banaslys í umferðinni er einu slysi of mikið og við hljótum að líta á það sem eitt mikilvægasta verkefni okkar í umferðarmálum að koma í veg fyrir þau slys og þann sársauka og harm sem þeim fylgir. Um þetta skulum við ekki bara sameinast hér í dag – heldur um allt land alla ársins daga.”

Þá minnti ráðherra á hið þýðingarmikla hlutverk þeirra starfsstétta sem koma við sögu í slysum bæði viðbragðsaðila og heilbrigðisstarfsfólks: ,,Í dag eru hér staddir fulltrúar þeirra stétta við treystum mest á vegna viðbragða við slysum í umferðinni og umönnun slasaðra. Þessir einstaklingar standa vaktina og takast á við erfið verkefni vegna umferðarslysa á hverjum degi, við eigum þeim mikið að þakka og erum lánsöm að búa við gott og öruggt kerfi á flestum sviðum hvað þetta varðar.”

Innanríkisráðherra kvað okkur búa við gott samgöngukerfi en ekkert kerfi væri svo gott að ekki mætti bæta það og kvaðst hún ætla að fylgja því fast eftir við Vegagerðina og aðra viðeigandi aðila að leggja meiri áherslu á viðhald samgöngumannvirkja og aukið öryggi í samgöngum. ,,En við þurfum líka að efla forvarnir og höfða til ábyrgðar einstaklinganna sjálfra. Okkar sem í umferðinni erum á degi hverjum. Og þrátt fyrir að margt hafi áunnist í slíkri vitundarvakningu á umliðinum árum og mörg fyrirtæki, líkt og tryggingarfélögin, hafi axlað ábyrð og lagt sig fram um fræðslu og fyrirbyggjandi starf, þurfum við stöðugt að leita leiða til að gera betur svo slysin í umferðinni verði færri og sársaukinn vegna þeirra verði minni. Það er markmið þessa dags og á að vera sameiginlegt markmið okkar allra – alla daga.”

Innanríkisráðherra sagði uppi hugmynd frá starfshópi um áratug aðgerða í umferðaröryggi að koma upp eins konar minningarreit um þá sem hafa látist í umferðarslysum. Kvaðst hún ætla að taka það upp við borgaryfirvöld hvort finna mætti stað fyrir slíkan reit í borgarlandinu þar sem aðstandendur gætu átt sína minningarstund með því að heiðra þá sem látist hafa. Slíkur reitur yrði einnig áminning til vegfarenda um það sameiginlega markmið allra að fækka slysum í umferðinni.

Í lok ávarpsins bað ráðherra viðstadda að sameinast í einnar mínútu þögn í minningu þeirra sem látist hafa.

Ólafur Ingvar deildi reynslu sinni með viðstöddum.Að loknu ávarpi ráðherra sagði Ólafur Ingvar Guðjónsson nokkur orð en hann varð valdur að banaslysi í umferðinni fyrir 15 árum þegar hann var ölvaður undir stýri. Hann þakkaði í upphafi heilbrigðisstarfsfólkinu fyrir umönnun og meðferð eftir slysið og sagði að nauðsynlegt að menn breyttu hugsunarhætti og viðhorfi til ölvunaraksturs yrði að breytast.

Ellen Björnsdóttir sagði frá reynslu sinni sem hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni.Síðast flutti ávarp Ellen Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni, sem sagði stuttlega frá starfi sínu og reynslu og sagði starfið iðulega erfitt og tæki á. Í þeirra hlut kæmi að sinna þeim slösuðu, aðstandendum og þeim sem væru valdir að slysi. Hún sagði þau ekki setja sig í sæti dómara, þeirra hlutverk væri fyrst og fremst aðhlynning. Hún sagði starfsfólk á deildinni standa vel saman og styðja hvert annað til að vinna úr einstökum atburðum en það myndi aldrei venjast að horfast í augu við afleiðingar slysa.

Eftir athöfnina heimsótti innanríkisráðherra bráðadeildina og ræddi við starfsfólk.

Innanríkisráðherra leit inn á bráðamóttökuna og ræddi við starfsmenn.

Starfshópur innanríkisráðuneytisins um Áratug aðgerða í umferðaröryggi annaðist undirbúning og framkvæmd minningardagsins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira