Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

Óskað eftir umsögnum vegna breytinga á stjórnsýslulögum

Forsætisráðuneytið óskar eftir umsögnum vegna fyrirhugaðra breytinga á stjórnsýslulögum. Fyrir liggja drög að frumvarpi þar sem lagðar eru til breytingar á ákvæðum um þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Frumvarpið var samið í kjölfar ábendinga frá stýrihópi sem skipaður var til að fylgja eftir ályktun Alþingis frá 16. júní 2010, þar sem samþykkt var að Ísland skapaði sér afgerandi lagalega sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsins. M.a. yrði leitað leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda yrði tryggð.

Í íslenskum stjórnsýslurétti eru þagnarskylduákvæði bæði mörg og matskennd sem veldur því að beiting þeirra er flókin og hætt við því að réttarframkvæmd sé hvorki samræmd né fyrirsjáanleg. Með frumvarpinu er lagt til að settar verði mun skýrari reglur þar sem afmarkað verði nánar inntak þagnarskyldu opinberra starfsmanna og hvaða hagsmuni þagnarskyldunni er ætlað að tryggja.

Athugasemdir við frumvarpsdrögin má senda til forsætisráðuneytisins, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, 101 Reykjavík, eigi síðar en 2. desember næstkomandi eða í tölvupósti á netfangið [email protected]

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira