Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2013 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Sigurður Ingi fundaði með Mariu Damanaki um stöðuna í makrílviðræðunum

Maria Damanaki og Sigurður Ingi
Maria Damanaki og Sigurður Ingi
Sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fundaði með sjávarútvegsstjóra ESB, Mariu Damanaki, á föstudaginn.  Þau ræddu stöðuna í makrílviðræðunum og samningafundinn sem hefst á Írlandi í dag. Það er ljóst að enn vantar eitthvað upp á, að samkomulag náist, en viðræður halda áfram.

Ísland boðaði til fundar í makríldeilunni í september og frá þeim fundi hefur nokkuð þokast í viðræðunum. Í kjölfar ráðgjafar alþjóðahafrannsóknaráðsins sem birt var í október og felur í sér verulega hækkun á ráðlögðum afla í makríl fyrir 2014 og betra ástand stofnsins en áður var talið, felst tækifæri til að leysa deiluna. Um það eru flestir, ef ekki allir, aðilar deilunnar sammála. Sigurður Ingi og Damanaki ræddu málin út frá stöðu viðræðnanna í dag, og mikilvægi þess að allir aðilar sem við borðið sitja leggi sitt af mörkum til þess að samningur takist og að makrílstofninn verði til framtíðar nýttur á sjálfbæran máta.

Þessa vikuna er haldinn strandríkjafundur á Írlandi og er íslensk sendinefnd á honum. Sigurður Ingi er ekki bjartsýnn á að samningar takist á þessum fundi þar sem óformlegum tvíhliða viðræðum aðila deilunnar um mögulegt samkomulag er ekki lokið. Það er þó ljóst að jákvæður andi er yfir viðræðunum og að enn er ástæða til bjartsýni á að þetta tækifæri sem nú er til samninga verði nýtt þó það takist ekki í þessari lotu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira