Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2013 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðherra flytur Alþingi skýrslu um síldardauðann í Kolgrafafirði

Unnið að hreinsun í Kolgrafafirði
Unnið að hreinsun í Kolgrafafirði
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flutti á Alþingi í dag skýrslu sína um stöðu mála og áætlanir um fyrirbyggjandi aðgerðir vegna síldardauðans í Kolgrafafirði síðastliðinn vetur.

Í máli sínu reifaði ráðherra sögu málsins og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna síldardauðans. Yfir 50.000 tonn af síld drápust í tveimur viðburðum síðastliðinn vetur í Kolgrafafirði. Orsök síldardauðans er talinn vera  súrefnisskortur, en enn eru uppi spurningar um hvaða þættir höfðu mest áhrif í því að skapa slíkar aðstæður. Ýmsir orsakavaldar hafa verið nefndir í því sambandi, s.s. veðurfarslegir þættir, hegðun síldarinnar sjálfrar og hugsanleg áhrif þverunar fjarðarins þótt ekki sé hægt að gefa óyggjandi svör um hvort ástæðunnar sé þar að leita.

Stjórnvöld gripu til hreinsunaraðgerða síðastliðinn vetur, þar sem mikil sjón- og lyktarmengun fylgdi síldardauðanum og óttast var að grútarmengun skaðaði fuglalíf, þar á meðal hafarnastofninn. Hreinsunaraðgerðir tókust vel að mati Umhverfisstofnunar og sjást nú lítil merki um viðburðina. Einnig settu stjórnvöld fé til vöktunar og rannsókna á aðstæðum í firðinum, til að skilja betur orsakir viðburðanna og byggja undir hugsanlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir endurtekningu þeirra eða í það minnsta að draga úr líkum á því. Þessar aðgerðir hafa kostað ríkissjóð um 40 milljónir króna, en einnig hafa opinberar stofnanir, s.s. Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun og Vegagerðin haft kostnað af rannsóknum og aðgerðum vegna viðburðanna.

Erfitt er að meta tjónið vegna síldardauðans, en giskað hefur verið á að það geti þýtt um 2-3 milljarða króna tap vegna minni afla úr íslenska sumargotsstofninum. Tjónið gæti verið meira, en jafnvel þótt matið lækkaði er ljóst að miklir hagsmunir eru hér á ferð fyrir þjóðarbúið í heild.

Viðbúnaður stjórnvalda nú vegna ástandsins í Kolgrafafirði er af þrennum toga: Vöktun á ástandi fjarðarins og staðsetningu síldarinnar; viðbragðsáætlun vegna hugsanlegs endurtekins viðburðar; og fyrirbyggjandi aðgerðir til að tryggja að atburður af þessu tagi endurtaki sig ekki. Í því sambandi hefur verið rætt um ýmsar aðgerðir, s.s. að loka firðinum við brúarþverunina, að rjúfa garðinn og byggja aðra brú austar, koma fyrir fælingarbúnaði,  súrefnisauðgun fjarðarins og jafnvel veiðar innan við brú. Ekki er talið raunhæft að ráðast í varanlega lokun fjarðarins í vetur enda um stóra og kostnaðarsama framkvæmd að ræða. Alls óvíst er um árangur af því að byggja nýja brú auk þess sem slík aðgerð yrði sömuleiðis verulega kostnaðarsöm. Unnið er að útfærslu og kostnaðarmati á tillögum um ólíkar fælingaraðgerðir og skoðað verður hvort fýsilegt sé að grípa til annarra aðgerða sem hafa verið nefndar.

Fyrir liggur viðbragðsáætlun við hugsanlegum endurteknum viðburðum í þessa veru og vöktun í firðinum hefur verið efld þar sem fylgst er grannt með öllum áhættuþáttum og breytingum. Þannig er unnið hörðum höndum að því að bæta skilninginn, efla vöktun og undirbúa aðgerðir sem geta vonandi komið í veg fyrir stórfelldan síldardauða á þessum slóðum í framtíðinni.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira