Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2013 Matvælaráðuneytið

Landbúnaðarsaga Íslands komin út

Sigurveig Erlingsdóttir, Helgi Skúli Kjartansson, Steingrímur J. Sigfússon, Árni Daníel Júlíusson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Einar K. Guðfinnsson
Sigurveig Erlingsdóttir, Helgi Skúli Kjartansson, Steingrímur J. Sigfússon, Árni Daníel Júlíusson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Einar K. Guðfinnsson
Í gær var því fagnað að Landbúnaðarsaga Íslands er komin út – fjögurra binda ritverk sem hefur verið í vinnslu sl. 9 ár. Spannar ritið sögu íslensks landbúnaðar allt frá landnámi og framyfir síðustu aldamót. Landbúnaðarsaga Íslands er mikið rit enda stór hluta Íslandssögunnar. Má nefna sem dæmi að um aldamótin 1800 voru íslendingar 47 þúsund, og töldust 39 þúsund hafa framfæri sitt af landbúnaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bauð helstu aðstandendum og styrktaraðilum útgáfunnar til móttöku í ráðuneytinu.

Höfundar verksins eru dr. Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur og Jónas Jónsson, fyrrverandi búnaðarmálastjóri. Hann lést árið 2007 en hafði þá lokið sínum skrifum. Dr. Helgi Skúli Kjartansson, sagnfræðiprófessor tók að sér að búa verk hans undir útgáfu. Frú Sigurveig Erlingsdóttir ekkja Jónasar kom til boðsins ásamt dætrum sínum og fagnaði útgáfunni. Þá var viðstaddur Steingrímur Steinþórsson forstjóri Skruddu bókaforlags sem gefur verkið út.
Hjá annarri eins sagnaþjóð og Íslendingum, kemur það nokkuð á óvart að þessi heildarsaga skuli ekki hafa komið út fyrr og má fullyrða að hér er um tímamóta verk að ræða – ekki aðeins á Íslandi heldur og á norrænum vettvangi þar sem sambærileg verk eru nýlega komin út.

Verkið er prýtt hundruðum ljósmynda og í alla staði hið fallegasta.

Í lok ávarp síns sagði ráðherra: „Það er ekkert launungarmál að ritun og útgáfa Landbúnaðarsögunnar sem hér er að líta dagsljósið hefur verið studd af ýmsum aðilum og þá fyrst og fremst hinu opinbera og þá á einn eða annan máta í gegnum landbúnaðarráðuneytið fyrir forgöngu þeirra ráðherra sem þar hafa farið með völd á ritunartíma sögunnar, þeim Guðna Ágústssyni, Einari K. Guðfinnssyni, Jóni Bjarnasyni og Steingrími J. Sigfússyni. Sú leið hefur áður verið farin og má nefna þar Iðnsögu Íslendinga og Sögu íslensks sjávarútvegs en hvoru tveggja voru einnig meginstoðir íslensks athafnalífs og efnahags. Einnig má nefna Kristnisögu Íslands, Sögu stjórnarráðsins svo eitthvað sé nefnt. M.ö.o. ráðherrar og Alþingi hafa gert sér ljóst að saga sem þessi er ekki rituð án þátttöku þjóðarinnar allrar og talið einsýnt að það fjármagn sem í hana er lögð skili sér með aukinni þekkingu nemenda og annarra lesenda – um Ísland og sögu þess viðfangsefnis sem um ræðir. Megi Landbúnaðarsaga Íslands vera sá þekkingarbrunnur sem að var stefnt og verða enn einn steinninn í þeim grunni sem heldur uppi Íslandi sem sagnaþjóð.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum