Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2013 Matvælaráðuneytið

Norðmenn með í þriðja sérleyfinu á Drekasvæðinu

Drekasvæðið
Drekasvæðið
Norðmenn hafa ákveðið að Petoro, olíufélag norska ríkisins, verði þátttakandi að fjórðungs hlut í þriðja sérleyfinu til leitar og vinnslu olíu á Drekasvæðinu.

Petoro Iceland AS mun taka þátt í leyfinu ásamt kínverska ríkisolíufélaginu CNOOC International Limited og Eykon Energy ehf. samkvæmt bréfi sem barst Orkustofnun kl. 15:00 í dag, 22. nóvember.

Áður en sérleyfið verður gefið út þarf norska Stórþingið að samþykkja þátttöku norska ríkisins og olíufélags þess, Petoro Iceland AS, í verkefninu. Í kjölfar þess og þegar aðilar sérleyfisins hafa undirritað samstarfssamning um verkefnið mun Orkustofnun gefa út umrætt sérleyfi, væntanlega öðru hvoru megin við áramót.

Orkustofnun lauk í október síðastliðinn umfjöllun sinni um sameiginlega umsókn Eykon Energy ehf. og kínverska ríkisolíufélagsins CNOOC International Limited um sérleyfi fyrir rannsóknir og vinnslu kolvetnis (olíu og gass) á Drekasvæðinu. Orkustofnun  hafði áður leitaði umsagna umhverfisráðuneytis [nú umhverfis- og auðlindaráðuneytis] og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis [nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis] í samræmi við ákvæði laga og mat þær umsagnir með tilliti til umsóknarinnar og þeirrar rannsóknaráætlunar sem þar um ræðir.

Stofnunin kannaði ítarlega tæknilega og jarðfræðilega getu umsækjenda til að takast á við þá umfangsmiklu starfsemi sem í leyfisveitingunni felst. Þá kannaði Orkustofnun fjárhagslega getu umsækjenda svo tryggt verði að umsækjendur hafi fjárhagslegt bolmagn til að sinna verkefninu til lengri tíma og til að gæta viðhlítandi umhverfis- og öryggisþátta. Það var mat Orkustofnunar að sameiginlega uppfylltu umsækjendur skilyrðin.

Orkustofnun tók í framhaldi af málsmeðferð sinni ákvörðun um að veita Eykon Energy ehf. og kínverska ríkisolíufélaginu CNOOC International Limited sérleyfi á Drekasvæðinu. Jafnframt var norskum stjórnvöldum tilkynnt um ákvörðunina og drög að sérleyfinu sent þeim til skoðunar auk þess sem óskað var eftir formlegu svari Norðmanna við því hvort þeir hyggi á þátttöku í leyfinu í samræmi við samkomulag milli Íslands og Noregs, frá árinu 1981, sem felur í sér að Norðmenn hafa rétt á allt að 25% þátttöku í sérleyfum á hluta svæðisins. Norðmönnum var í þessu tilviki boðin 25% þátttaka á öllu leyfissvæðinu, í samráði við umsækjendur.

Væntanlegir leyfishafar hafa kynnt sér leyfisdrögin og komið athugasemdum sínum á framfæri, sem Orkustofnun hefur eftir atvikum samþykkt og aðilar eru ásáttir um. Norðmenn hafa tekið þátt í samráðsferlinu gegnum norska olíu- og orkumálaráðuneytið, kynnt sér leyfisdrögin og á sama hátt komið sínum sjónarmiðum á framfæri.

Með þessari þriðju leyfisveitingu Orkustofnunar er úthlutun leyfa lokið samkvæmt öðru útboði sérleyfa á Drekasvæðinu en umsóknarfrestur var til 2. apríl 2012. Orkustofnun hafði í janúar síðastliðinn veitt annars vegar Faroe Petroleum Norge AS, Íslensku kolvetni ehf. og Petoro Iceland AS og hins vegar Valiant Petroleum ehf., Kolvetni ehf. og Petoro Iceland AS sérleyfi á Drekasvæðinu. Leyfin eru veitt með vísan til ákvæða laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með síðari breytingum, reglugerðar nr. 884/2011, ásamt upplýsingum í sérleyfisumsókn og öðrum upplýsingum frá umsækjendum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum