Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Af stöðu mála í Kolgrafafirði

Stjórnvöld fylgjast grannt með stöðu mála í Kolgrafafirði eftir að mikið magn síldar gekk inn í fjörðinn. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að bjarga verðmætum, reyna að fæla síldina af hættuslóðum og bæta vöktun á ástandi fjarðarins og mat á hættu. Einnig liggur fyrir viðbragðsáætlun ef nýr síldardauði verður. Áfram eru skoðaðar fyrirbyggjandi aðgerðir til lengri tíma, en fyrir liggur að helstu kostir í þeim efnum eru dýrir og tímafrekir og veruleg óvissa er um árangur sumra þeirra.

Hópur ráðuneytisstjóra sem ríkisstjórnin skipaði til að fara yfir aðgerðir og kostnað vegna þeirra fundaði í dag til að fara yfir stöðu mála. Meðal þess sem þar var rætt var möguleiki á að rjúfa þverun fjarðarins og opna hana frekar, í því skyni að auka sjóflæði og bæta súrefnisstöðu. Ljóst er að slík framkvæmd mun taka nokkrar vikur og að óvíst er hvort hún hefði tilætluð áhrif. Hafrannsóknastofnun og Vegagerðin hafa unnið að rannsóknum og mati á þessum möguleika í nokkra mánuði og munu senda greinargerð um niðurstöður sínar á næstu dögum og fjalla þar um fýsileika þessa kosts og líklegan kostnað.

Vöktun á ástandinu í innri hluta Kolgrafafjarðar hefur verið stórefld. Komið hefur verið fyrir nettengdri bauju sem gefur stöðugar upplýsingar um súrefnismettun og auðveldar mönnum að sjá ef hættuástand skapast. Nýjustu mælingar gefa til kynna að súrefnismettun sé góð og gefa þær ekki tilefni til ótta um dauði síldar sé yfirvofandi á allra næstu dögum. Það þykir ljóst að samspil nokkurra þátta þurfi til þess að magndauði eigi sér stað, s.s. þéttleiki síldar í firðinum og stillt veðurfar, sem orsaki verulegt fall í súrefnismettun. Nauðsynlegt er að mæla magn síldar í innri hluta fjarðarins til að meta betur hættuna á fiskidauða. Hafrannsóknastofnun mun mæla magn síldarinnar þar í þessari viku um leið og veðurskilyrði leyfa. Frekari upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda eru hér að neðan.

Nýting verðmæta

Eins og fram kom fyrir helgi eru veiðar smábáta á síld nú heimilaðar fyrir innan brú í Kolgrafafirði upp að 1.300 tonnum til að byrja með. Nokkrar áhyggjur hafa verið af öryggissjónarmiðum tengdum veiðunum. Á fundi fulltrúa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis með heimamönnum um helgina var ákveðið að lýsa brúna á þverun fjarðarins sérstaklega og tekur ráðuneytið þátt í kostnaði af því. Jafnframt er í skoðun að setja upp sérstaka löndunaraðstöðu í Kolgrafafirði og verður fýsileiki þess áfram kannaður. Markmiðið er að nýta til verðmæta síld sem annars kynni að farast. 

Aðgerðir til að koma síld úr firðinum

Hafrannsóknastofnun er nú að gera tilraunir með fælingu síldar með hvalahljóðum. Skoðað er hvort slík hljóð hafi fælingarmátt á síldina þannig að hún sé líklegri til að synda út úr innri hluta Kolgrafafjarðar.  Óljóst erhvort þessar tilraunir skila árangri en það er þekkt í náttúrulegu umhverfi síldarinnar að hún fælist undan hvalahljóðum.  Fleiri tilraunir til fælingar eru í bígerð, en fjölmargar tillögur þess efnis liggja fyrir. Það á þó það sama við og varðandi hljóðfælingu, að slíkar aðgerðir hafa ekki verið útfærðar í því umfangi sem við er að eiga nú og óvissa er um árangur þeirra.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Strax við síldardauðann í fyrra hófu Hafrannsóknarstofnun og Vegagerðin auknar rannsóknir á svæðinu. Þær miða að því að gera straumlíkan af firðinum til þess að fá betri mynd af því hvaða áhrif þverun kann að hafa haft. Þessar rannsóknir taka um ár. Það er ljóst að síld hafði í tugi ára ekki haft vetursetu á þessu svæði. Það liggur ekki fyrir nú að hvaða marki þverun fjarðarins er orsök þess ástands sem nú blasir við eða hegðun síldarinnar, eða samspil beggja. Vonast er til þess að þessar rannsóknir skili upplýsingum sem hægt er að byggja á til ákvarðanatöku um fyrirbyggjandi aðgerðir.

Tengiliðahópur sem fjallað hefur um málefni Kolgrafafjarðar hefur leitast við að skoða allar hugmyndir sem upp hafa komið um fyrirbyggjandi aðgerðir. Sumar hafa ekki þótt líklegar til árangurs þegar allir þættir lífkerfisins hafa verið teknir til skoðunar, aðrar eru kostnaðarsamar bæði þegar þær eru metnar til fjárs og óafturkræfra áhrifa á umhverfi og ekki ljóst, án rannsókna, hvort að líklegar þyki til árangurs. Það hefur því verið metið svo að æskilegt sé að ljúka þessum rannsóknum og leitast við að átta sig til fulls á hegðun lífríkisins áður en farið verður í frekari kostnaðarsamar, óafturkræfar aðgerðir. Leitast hefur verið við að hafa samráð við heimamenn bæði um hugmyndir að aðgerðum og við mat á mögulegum aðgerðum. Fullur vilji er til þess að vinna málið í sem mestri samvinnu og á grundvelli aðgerða sem þykja líklegar til að skila viðunandi árangri.

Viðbrögð við dauða

Það er ljóst að þrátt fyrir bætta vöktun, fælingartilraunir og heimilun veiða í innri hluta Kolgrafafjarðar er hætta á að stórfelldur síldardauði endurtaki sig þrátt fyrir allan vilja til að reyna að koma í veg fyrir það. Til er viðbragðsáætlun við slíku slysi, sem Umhverfisstofnun hefur unnið og byggir á reynslu af hreinsunaraðgerðum eftir síldardauðann síðasta vetur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira