Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Drög að reglugerð um málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki á EES

Drög að reglugerð um málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Umsagnarfrestur er til og með 9. desember næstkomandi og skulu umsagnir berast á netfangið [email protected].

Með drögum þessum er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 764/2008, frá 9. júlí 2008, um málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki og um niðurfellingu á ákvörðun 3052/95/EB. Reglugerðin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 126/2012.

Meginreglan um gagnkvæma viðurkenningu

Reglugerð þessi á rætur að rekja til meginreglunnar um gagnkvæma viðurkenningu (e. principle of mutual recognition). Meginreglan var fyrst sett fram í dómi Evrópudómstólsins, í máli 120/78, betur þekkt sem Cassis de Dijon. Reglan felur það í sér að aðildarríki EES geta ekki takmarkað innflutning vöru ef hún er löglega markaðssett í öðru aðildarríki. Einu undantekningarnar eru þær sem réttlætast t.d. af almennu siðferði, allsherjarreglu eða almannaöryggi.

Meginreglan gildir aðeins um þær vörur sem ekki eru háðar samhæfingarlöggjöf EES-réttar. Ef slík löggjöf er fyrir hendi varðandi ákveðna vöru eru takmarkanir, sem aðildarríki hyggst beita við innflutningi hennar, metnar í samræmi við þá löggjöf.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 764/2008

Beiting meginreglunnar um gagnkvæma viðurkenningu hefur verið sundurleit í framkvæmd aðildarríkjanna. Til að bæta frjálsa vöruflutninga var brugðið á það ráð að setja reglugerð sem mælir fyrir um þá málsmeðferð sem lögbær stjórnvöld aðildarríkjanna verða að fara eftir þegar þau hyggjast taka ákvörðun sem getur takmarkað innflutning vöru, sem hefur verið löglega markaðssett í öðru aðildarríki.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira