Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2013 Matvælaráðuneytið

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra á orkuráðstefnu í Rúmeníu  -  EFTA sjóðurinn styrkir verkefni á sviði endurnýjanlegrar orku

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Í dag ávarpaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ráðstefnu í Búkarest, sem haldin er í tilefni af því að Þróunarsjóður EFTA hleypir nú af stokkunum verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku þar í landi, m.a. verkefnum í aukinni hitaveituvæðingu, en í ræðu ráðherra kom m.a. fram hvernig Íslendingum tókst á áhrifaríkan hátt að nýta jarðhita sinn og draga um leið úr olíubrennslu og tilheyrandi mengun. Með ráðherra í för eru forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja sem hafa mikla reynslu á sviði jarðhitanýtingar.

EFTA-sjóðurinn er fjármagnaður af Íslandi, Noregi og Lichtenstein og styrkir sjóðurinn ýmis verkefni í þeim aðildarríkjum ESB sem lakar standa í efnahagslegu tilliti. Styrkþegaríki sjóðsins eru því öll í Suður- og Austur-Evrópu. Í Rúmeníu verða styrkt verkefni bæði á sviði jarðhita og vatnsafls.

Orkustofnun fer með umsjón verkefna á sviði jarðhita en þar er mest áhersla lögð á uppbyggingu hitaveitna og að koma á jarðhitanýtingu hjá hitaveitum sem nú nota jarðgas sem orkugjafa. Með verkefninu er því bæði stuðlað að aukinni nýtingu innlendrar hreinnar orku og jafnframt dregið úr notkun innflutts jerðefnaeldsneytis. Heildarfjármagn til orkuverkefna í Rúmeníu nema um 14 milljónum evra eða um 2,2 milljörðum íslenskra króna á núvirði.

Það er systurstofnun Orkustofnunar í Noregi, Norges vassdrags- og energidirektorat, sem fer með umsjón þeirra verkefna sem lúta að nýtingu vatnsafls, en þar verður horft til möguleika á uppbyggingu  lítilla vatnsaflsvirkjana.

Nánar um Þróunarsjóð EFTA.

Ávarp Ragnheiðar Elínar









Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum