Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2013 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra fundar með utanríkisráðherra Breta

William Hague og Gunnar Bragi Sveinsson

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti nú undir kvöld fund með William Hague, utanríkisráðherra Breta í London. Ráðherrarnir ræddu ýmis mál á fundi sínum; stöðuna í alþjóðamálum og samskipti ríkjanna.

Utanríkisráðherra fagnaði nýju samkomulagi sem náðist um helgina um kjarnorkuáætlun Írana en Hague kom að samningagerðinni. Ráðherrarnir ræddu ennfremur hið alvarlega ástand í Sýrlandi og stöðuna í Mið-Austurlöndum.

Gunnar Bragi og Hague voru sammála um mikilvægi bættra samskipti Breta og Íslendinga, bæði menningarlegra og í viðskiptum. Sagði Hague það hafa komið sér mjög á óvart í Íslandsferð sinni fyrir nokkrum árum hversu vel Íslendingar þekktu til Breta og breskrar menningar. Þá ræddu ráðherrarnir Evrópumál en breski íhaldsflokkurinn hefur lýst vilja sínum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu, líklega árið 2017.

Fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í næstu viku var einnig ræddur, svo norðurslóðamál en fyrr í þessum mánuði birti breska ríkisstjórnin fyrstu norðurslóðastefnu sína í ítarlegri skýrslu um norðurslóðamál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira