Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sveitir Álfhólsskóla og Rimaskóla unnu til Norðurlandaverðlauna

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra efndi til móttöku fyrir unga skákmenn.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra efndi til móttöku fyrir unga skákmenn.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra efndi til móttöku fyrir unga skákmenn.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra efndi til móttöku fyrir unga skákmenn úr Álfhólsskóla í Kópavogi og Rimaskóla í Reykjavík vegna frábærrar frammistöðu þeirra í skák.

Skáksveit Rimaskóla vann nokkuð öruggan sigur á Norðurlandamóti grunnskóla sem fram fór í bænum Hokksund í Noregi helgina 13. - 15. september sl. Skáksveitin tefldi við allar meistarasveitir hinna Norðurlandanna og vann Rimaskóli þær allar nema dönsku sveitina sem náði jafntefli í 1. umferð. Skáksveit Rimaskóla hlaut 16,5 vinninga af 20 mögulegum og sú danska reyndist næststerkust með 15,5 vinninga. Skáksveitir Rimaskóla hafa nú unnið Norðurlandamót barna- og grunnskólasveita fjögur ár í röð, tvisvar í hvorum flokki. Á Norðurlandamótinu í Noregi voru þeir Dagur Ragnarsson og Jón Trausti Harðarson að tefla í síðasta sinn fyrir Rimaskóla þar sem þeir útskrifuðust frá skólanum sl. vor. Þeir urðu fyrst Íslands- og Norðurlandameistarar með skólanum árið 2008 og Íslandsmeistarar samfellt í sex ár. Norðurlandameistarar Rimaskóla 2013 eru Dagur Ragnarsson, Oliver Aron Jóhannesson, Jón Trausti Harðarson, Nansý Davíðsdóttir og Kristófer Jóel Jóhannesson. Liðsstjóri var Hjörvar Steinn Grétarsson landsliðsmaður í skák og Norðurlandameistari með Rimaskóla 2004 og 2008.

Skáksveit Álfhólsskóla varð Norðurlandameistari barnaskólasveita á móti sem fram fór í Helsinki í september sl. Sveitin hlaut 15 af 20 vinningum. Í öðru sæti varð sveit Noregs og Danir í 3. sæti. Mótið var mjög spennandi og úrslit fengust ekki fyrr en í síðustu skákum síðustu umferðar. Álfhólsskóli gerði jafntefli 2-2 í 1. og 2. umferð mótsins við sveitir Noregs og Finnlands. Sveitin vann sveit Dana 3-1 í 3. umferð og vann loks bæði B sveit Finna og sveit Svía 4 -0 í 4. og 5. umferð. Álfhólsskóli hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á að bjóða nemendum skólans upp á skákkennslu. Skáksveit skólans varð Íslandsmeistari barnaskólasveita sl. tvö ár og er nú Norðurlandsmeistari eftir að hafa lent í 2. sæti mótsins á síðasta ári. Skáksveit Álfhólskóla skipuðu Dawid Kolka, Felix Steinþórsson, Guðmundur Agnar Bragason og Oddur Þór Unnsteinsson. Halldór Atli Kristjánsson var varamaður. Liðsstjóri liðsins og þjálfari er Lenka Ptácníková landsliðskona og stórmeistari kvenna. 

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra efndi til móttöku fyrir unga skákmenn.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra efndi til móttöku fyrir unga skákmenn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum