Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp til fjáraukalaga

Frumvarp til fjáraukalaga hefur verið lagt fram á Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildarjöfnuður ársins verði neikvæður um 25,5 mia.kr, en það er 21,8 mia.kr lakari niðurstaða en gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum.

Nú er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði 555,6 mia.kr. á rekstrargrunni og heildargjöld 581,1 mia.kr. Áætlun um afkomu ríkissjóðs á árinu 2013 hefur verið endurskoðuð með hliðsjón af þjóðhagsspá sem Hagstofan birti 28.júní sl. og í ljósi nýrra upplýsinga um þróun tekjustofna og útgjalda helstu málaflokka frá þeim tíma.

Breytingarnar á afkomu ríkissjóðs frá áætlun fjárlaga stafa aðallega af því að tekjur ríkissjóðs eru umtalsvert lægri en áætlað var í fjárlögum, eða sem svarar til nálægt 24 mia.kr. Það skýrist af minni hagvexti en áætlað var og því að tekjuöflunaráform fyrri stjórnvalda gengu ekki eftir.

Efnahagsbatinn hefur verið hægari en áætlað var við gerð fjárlaga 2013 og hefur það í för með sér að tekjur ríkissjóðs vaxa einnig hægar. Áhrif breyttrar þjóðhagsspár má ráða af því að þótt horfur séu á að tekjur verði mun minni en áætlað var verða þær nánast óbreyttar sem hlutfall af landsframleiðslu. Samanlagt er nú reiknað með að veikari efnahagsforsendur lækki tekjuáætlun ársins 2013 um 11,6 mia.kr.

Þá hafa forsendur um aukna tekjuöflun af sérstöku veiðigjaldi lækkað um 3,2 mia.kr. og um 0,5 mia.kr. vegna virðisaukaskatts á hótel og gistináttaþjónustu. Áform í fjárlögum um 4 mia.kr. tekjur af söluhagnaði af eignasölu munu ekki ganga eftir og einnig er gert ráð fyrir að arðgreiðslur til ríkisins lækki um 1,2 mia.kr. Loks má nefna að breytingar á mörkuðum tekjustofnum lækka tekjuhliðina um 2 mia.kr.

Heildarútgjöld lækka um 1,9 mia.kr

Hvað útgjaldahlið frumvarpsins snertir eru gerðar tillögur um breytingar á fjárheimildum í frumvarpinu vegna breyttra útgjaldaskuldbindinga. Þær eiga að stærstum hluta rætur að rekja til áhrifa af endurmati á ýmsum kerfislægum útgjaldaþáttum, s.s. útstreymi sjúkratrygginga og bótakerfa, og breytinga sem orðið hafa á forsendum ýmissa áætlana, s.s. um vaxtakostnað ríkisins og fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt þessu endurmati lækka heildarútgjöld í frumvarpinu um 1,9 mia.kr. miðað við gildandi fjárlög.

Frumútgjöld hækka á hinn bóginn um 5,5 mia.kr. en mismunurinn skýrist af bata í vaxtajöfnuði ríkissjóðs. Gangi þessi niðurstaða eftir verður frávikið á útgjaldahliðinni frá fjárlögum með minnsta móti og er það til marks um þá aðhaldssemi sem beitt var við undirbúning frumvarpsins.


Frumvarpið er aðgengilegt á vef Alþingis á fjarlog.is. Fjármála- og efnahagsráðherra mælir fyrir því fimmtudaginn 28.nóvember.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira