Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2013 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðuneytið vísar til fyrirhugaðra aðgerða í Kolgrafafirði til að koma í veg fyrir síldardauða, gríðarlegt tap á verðmætum og stórfellt mengunarslys!

Í Kolgrafafirði sl. laugardag. Ljósmynd: Róbert Arnar Stefánsson
Í Kolgrafafirði sl. laugardag. Ljósmynd: Róbert Arnar Stefánsson

Íslenski síldarstofninn er okkur afar verðmætur og skilar að líkindum þjóðarbúinu í ár um 12 milljarða í útflutningstekjur.

Vonir standa til að stofninn sé einnig að taka sér vetursetu við Suð-austurland en enn er Breiðafjörður langmikilvægastur  fyrir vetrarsetu hans. Í Breiðafirði voru mæld s.l. vetur um 320 þúsund tonn .  Síldardauðinn sl. vetur, var metinn um 52 þúsund tonn eða um 10% stofnsins. Þessi afföll úr stofninum voru í raun og veru stórfellt umhverfisslys og sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar meta það svo að lífríki fjarðarins innan brúar sem var,  sé nú nánast dautt tæpu ári síðar.

Mælitæki til að mæla súrefni eru nýlega komin í fjörðinn og því hægt að fylgjast með magni þess. Í byrjun þessarar viku var ljóst að súrefnismagnið í firðinum fór lækkandi. Þetta súrefnismagn steig svo þegar veður versnaði og vindhraði jókst en svo virðist sem flæði súrefnis í fjörðinn sé háð áhrifum veðurs. Dregin var sú ályktun af þessu að mikil síld sem þarf mikið súrefni væri í firðinum innan brúar. Við óhagstæð veðurskilyrði,  þ.e.a.s. staðviðri, er því veruleg hætta á síldardauða og mögulega gæti slíkt gerst mjög hratt.  Með hliðsjón af framangreindu var ákveðið að fresta ekki aðgerðum heldur gera strax tilraun strax til að koma síldinni út úr firðinum.

Ákveðið var í framhaldi af framangreindu, eins og kunnugt er, að grípa til mjög óvenjulegra aðgerða til að forða því að síld dræpist í stórum stíl í Kolgrafafirði. Aðgerðin felst í því að fæla síldina út úr innsta hluta fjarðarins og út fyrir brú með smásprengjum og tundurþræði.

Að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eftir samráð við innanríkisráðherra, fer almannavarnadeild ríkislögreglustjóra með samhæfingu aðgerða, en í henni taka þátt Hafrannsóknastofnun, lögregla á svæðinu ásamt Landhelgisgæslunni sem hefur fagþekkingu til að sjá um þá aðgerð sem nú er gripið til. Hlutverk Hafrannsóknunarstofnunar er tvíþætt. Stofnunin tekur þátt í skipulagi aðgerðarinnar og nýtur þar sérþekkingar sinnar en hefur jafnframt vald til þess að stöðva hana ef í ljós kemur að hún skili ekki tilætluðum árangri eða minnsta hætta þyki á  að hún valdi meiri skaða en gagni. Af þessu má ráða að allrar varúðar verður gætt svo sem mögulegt er. Samstarf er einnig haft við vana síldarskipsstjóra sem eru á svæðinu en þeir þekkja best hegðun síldarinnar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson vill taka fram að honum er ljóst að nokkur áhætta fylgir þessari aðgerð þó fyllstu varúðar sé gætt en það er hans mat að áhættan af því að aðhafst ekki neitt sé mun meiri og það sé ekki réttlætanlegt í ljósi þeirra hagsmuna sem eru í húfi.

Samkvæmt mælingum Hafrannsóknarstofnunar sem voru gerðar fyrr í dag eru nú um 70 þúsund tonn af síld innan brúar í Kolgrafarfirði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira