Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

Alþjóðleg verðlaun fyrir árangur Íslands á sviði kynjajafnréttis

Frá verðlaunaafhendingunni í Brussel
Frá verðlaunaafhendingunni í Brussel

„Ég vonast til að Ísland geti lagt af mörkum í samstarfi þjóðanna og tekið virkan þátt í því mikilvæga sameiginlega verkefni að bæta stöðu kvenna og stuðla að jafnrétti kynjanna, hvar sem er í heiminum“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar hún veitti viðtöku jafnréttisverðlaunum fyrir Íslands hönd á þingi Alþjóðasamtaka þingkvenna í vikunni.

Verðlaunaafhendingin fór fram á ráðstefnunni Women in Parliaments sem efnt var til í Brussel í vikunni á vegum Evrópuþingsins í tilefni þess að 120 ár eru liðin frá því að konur á Nýja Sjálandi fengu kosningarétt, fyrstar kvenna. Þátttakendur komu víðs vegar að úr heiminum og í hópi þeirra voru margir vel þekktir stjórnmálamenn, Nóbelsverðlaunahafar, aðgerðasinnar og áhrifavaldar á sviði jafnréttismála sem ræddu hvernig konur í leiðtogastöðum geta stuðlað að mikilvægum breytingum í stjórnmálum og samfélaginu almennt.

Í nýlegri úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) á stöðu jafnréttismála sem tekur til 136 landa varð Ísland í fyrsta sæti þriðja árið í röð. Matið byggist á þáttum eins og stjórnmálaþátttöku, þátttöku í atvinnulífinu og efnahagslegum jöfnuði og tækifærum til þess að njóta menntunar og heilbrigðisþjónustu.

Eygló Harðardóttir velferðarráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tóku við viðurkenningum fyrir Íslands hönd fyrir þann framúrskarandi árangur sem náðst hefur í því að brúa bilið milli kynja líkt og fram kemur í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins. Í ávarpi sem Eygló flutti við þetta tækifæri sagði hún meðal annars:

„Það er mér mikill heiður að standa í þessum sporum og veita viðtöku fyrir hönd Íslands þeirri viðurkenningu sem hér er veitt.

Réttindi kvenna eru mannréttindi og engin þjóð getur staðið undir nafni sem heil og sameinuð þjóð ef konur og karlar fá ekki notið til jafns allra réttinda og tækifæra sem samfélagið hefur upp á að bjóða.

Eins og við vitum er staða kvenna í heiminum afar ólík eftir löndum og heimshlutum. Ástæðurnar fyrir kynbundnu misrétti eru margvíslegar – og ræturnar geta legið djúpt og því reynst erfitt að uppræta þær. Þetta vitum við öll en við vitum líka að með þrotlausri vinnu, sterkum vilja og trú á málstaðinn getum við flutt fjöll og rutt öllum hindrunum úr vegi.

Jafnrétti kynja er mikilvæg forsenda fyrir hagsæld og velferð þjóða. Rannsóknir sýna að valdefling kvenna og kynjajafnrétti stuðlar að aukinni framleiðni, eflir stofnanir samfélagsins og leggur grunn að betri framtíð komandi kynslóða.

Sú þjóð sem tryggir ekki rétt kvenna til menntunar, atvinnuþátttöku, stjórnmálaþátttöku og efnahagslegra gæða til jafns við karla – sú þjóð sem heldur konum niðri með því að neita þeim um sjálfstæði og sjálfræði og fulla þátttöku og áhrif í samfélaginu – sú þjóð grefur undan sjálfri sér og möguleikum sínum til að blómstra og dafna í framtíðinni.“

Eygló lagði áherslu á að viðureknningin feli ekki í sér að verkefninu sé lokið, hún sé miklu fremur hvatning til þess að gera enn betur í því að efla þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins, styrkja áhrif kvenna í atvinnulífinu og stjórnmálalífinu og útrýma kynbundnum launamun. „Það er ánægjulegt og mikils virði fyrir okkur Íslendinga að hafa öðlast þennan sess í samfélagi þjóðanna – að vera þjóð sem litið er upp til fyrir að tryggja konum mannréttindi sem ættu að vera sjálfsögð - en eru það því miður ekki svo víða um heim. Ég lít svo á að verðlaunin sem hér eru afhent feli ekki aðeins í sér viðurkenningu heldur fylgi henni einnig ábyrgð. Ég vonast til að Ísland geti lagt af mörkum í samstarfi þjóðanna og tekið virkan þátt í því mikilvæga sameiginlega verkefni að bæta stöðu kvenna og stuðla að jafnrétti kynjanna, hvar sem er í heiminum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira