Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Íslensk heilbrigðisþjónusta í þriðja efsta sæti meðal Evrópuþjóða árið 2013

Læknisskoðun
Læknisskoðun

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er sú þriðja besta  í samanburði milli 35 Evrópuþjóða samkvæmt niðurstöðum árlegrar mælingar Health Consumar Powerhouse sem birtar voru í Brussel í gær. Árangur meðferðar mælist hvergi meiri en hér á landi.

Vísitala notenda heilbrigðisþjónustu, svo kölluð EHCI-vísitala (e. Euro Health Consumer Index) er orðinn staðlaður mælikvarði á heilbrigðisþjónustu í Evrópu oghefur verið gefin út af fyrirtækinu Health Consumer Powerhouse í Svíþjóð frá árinu 2005. Vísitalan byggist á 42 gagnreyndum mælikvörðum þar sem horft er til þátta eins og réttinda sjúklinga og upplýsinga til þeirra, aðgengi að meðferð (biðtíma), árangri meðferðar, umfangi og útbreiðslu þjónustu, forvörnum og þáttum sem tengjast lyfjum, aðgengi að þeim og fleira.

Holland og Sviss eru í fyrsta og öðru sæti, Ísland í því þriðja og Danmörk í fjórða sæti. Í greinargerð með niðurstöðunum er vakin athygli á því að Ísland hafi gengið í gegnum miklar efnahagsþrengingar en tekist þrátt fyrir það að viðhalda gæðum heilbrigðisþjónustunnar og halda þriðja sætinu öll árin sem það hefur verið með í samanburðinum.

Heilbrigðisvísitala ársins 2013 sýnir Holland og Sviss í fyrsta og öðru sæti og Ísland í því þriðja. Af hinum Norðurlandaþjóðunum koma Danmörk og Noregur í fjórða og fimmta sæti en Finnland og Svíþjóð í tíunda og ellefta sæti.

Í mælingunni er lagt mat á árangur meðferðar tíu sjúkdóma og er Ísland eina ríkið í samanburðinum sem nær efsta flokki fyrir alla þætti meðferðarárangurs.

Í tilkynningu Health Consumer Powerhouse með niðurstöðum sambærilegra mælinga árið 2012 var bent á að EHCI-vísitalan sýndi stöðugar framfarir í heilbrigðisþjónustu í Evrópu með bættum árangri meðferðar og almennum aðstæðum. Í ljósi þess virtist sem neikvæð áhrif kreppunnar á heilbrigðisþjónustu hefðu verið ofmetin. Í tilkynningu með niðurstöðum ársins 2013 er aftur á móti bent á að nú megi greina vaxandi gjá milli landa og svæða í Evrópu eftir efnahagsástandi. Framfarir gerist mun hraðar hjá tekjuhærri þjóðunum sem valdi því að bilið eykst milli efnuðustu þjóðanna og þeirra sem verr eru staddar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum