Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Reykjavíkurborg og ríkisskattstjóri fá viðurkenningu fyrir bestu vefina

Reykjavíkurborg og ríkisskattstjóri fengu í gær viðurkenningu fyrir bestu vefina meðal sveitarfélaga og ríkisstofnana. Viðurkenningarnar voru afhentar á fjölsóttri ráðstefnu þar sem fjallað var um stefnuna um upplýsingasamfélagið og þau verkefni sem henni tengjast. Ráðstefnan var haldin á vegum innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ský, Skýrslutæknifélags Íslands.

Reykjavíkurborg er með besta vef meðal sveitarfélaga og ríkisskattstjóri meðal ríkisstofnana.
Reykjavíkurborg er með besta vef meðal sveitarfélaga og ríkisskattstjóri meðal ríkisstofnana.

Kannanir á gæðum opinberra vefja hafa farið fram annað hvert ár frá árinu 2005. Vefirnir eru metnir út frá innihaldi, nytsemi, aðgengi fyrir fatlaða, þjónustu og möguleikum almennings til lýðræðislegrar þátttöku. Alls voru kannaðir 265 vefir.

Marta Lárusdóttir, formaður dómnefndar, tilkynnir að Reykjavíkurborg fái viðurkenningu fyrir besta vef meðal sveitarfélaga.

Niðurstöður heildarmats eru þær að einkunn hefur farið hækkandi allt frá árinu 2005 eða úr 50 stigum í 70 í ár. Séu einstaka liðir skoðaðir kemur í ljós að einkunn fyrir innihald og aðgengi  hækkar, þjónusta stendur í stað og nytsemi lækkar lítillega. Ráðuneytisvefir fá 100 stig í flokknum innihald en allar tegundir opinberra vefja bæta sig í þessum flokki. Þá fá ráðuneytisvefir yfir 80% í einkunn fyrir virkni sem styður rafrænt lýðræði en aðrir opinberir vefir fá einkunnir frá 20% og uppí rúmlega 40%.

Ríkisskattstjóri fékk viðurkenningu fyrir besta ríkisvefinn.Vefir sveitarfélaga sem fengu flest stig voru Reykjavíkurborg, Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Seltjarnarnes og Dalvíkurbyggð. Ríkisvefir sem fengu flest stig voru ríkisskattstjóri, Ísland.is, Tryggingastofnun ríkisins, Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Orkustofnun, Sjúkratryggingar Íslands og tollstjóri.

Fyrirtækið Sjá annaðist matið á vefjunum og síðan lagði dómnefnd sitt mat á stigahæstu vefi og skar úr um það hvaða tveir vefir fengu nafnbótina bestu vefirnir 2013. Dómnefndina skipuðu; Marta Lárusdóttir, lektor í tölvunarfræði við HR og sérfræðingur í viðmótshönnun, Rakel Pálsdóttir, forstöðumaður almannatengsla hjá Samtökum iðnaðarins, og Sigurjón Ólafsson, ráðgjafi hjá Funksjón vefráðgjöf. Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, afhenti verðlaunin, og tóku við þeim Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Björn Friðrik Brynjólfsson fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Ráðstefna UT-dagsins var vel sótt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira