Hoppa yfir valmynd
4. desember 2013 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra fundar með utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsins

Gunnar Bragi á utanríkisráðherrafundi NATO

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók þátt í utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í dag í Brussel. Helstu mál sem utanríkisráðherrarnir ræddu voru m.a. staða verkefnisins í Afganistan, mikilvægi verkefna og samráðs við samstarfsríki á sviði varnar- og öryggismála, efling varnargetu og samhæfingar í aðgerðum bandalagsins. Utanríkisráðherrarnir ákváðu skipulag og markmið sem unnið skal að næstu mánuði á þessum sviðum í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins sem haldinn verður í Wales í september að ári.

 
Utanríkisráðherrarnir funduðu með utanríkis- og innanríkisráðherrum Afganistan, svo og samstarfsríkjunum sem taka þátt í alþjóðlegu öryggissveitunum í Afganistan (ISAF), samtals 49 ríki. Í lok ársins 2014 lýkur verkefni þeirra undir stjórn Atlantshafsbandalagsins og miðað er við að nýtt verkefni, mun smærra í sniðum, styðji við þjálfun, uppbyggingu og samstarf við afganskar öryggissveitir og lögreglu næstu árin þar á eftir. Ísland hefur í starfi og áherslum fylgt fast eftir að staða og þátttaka kvenna í enduruppbyggingu og aðkoma að friðar- og öryggismálum í landinu sé tryggð. 

„Við sjáum fram á miklar breytingar á umsvifum og verkefnum Atlantshafsbandalagsins á næstu árum, þegar þessi stóra aðgerð í Afganistan dregst verulega saman“, sagði utanríkisráðherra. „Þá reynir á að bandalagið haldi viðbragðsgetu og viðbúnaði með æfingum, samstarfi og hugsanlega aðstoð við samstarfsríki um þjálfun og uppbyggingu. Við höfum sem bandalagsríki m.a. tekið þátt í og stutt við fjölmörg verkefni sem stuðla að friði, byggt upp og bætt stöðu í stríðshrjáðum löndum, t.d. á Balkanskaganum og í Afganistan, undir forystu bandalagsins. Þátttaka Íslands í bandalaginu, ásamt varnarsamningnum, er ein meginstoðin í okkar utanríkisstefnu og hefur aukið vægi í ljósi vaxandi mikilvægis okkar heimshluta vegna breytinga á norðurslóðum.“ 

Einnig var fundað í NATO-Rússlandsráðinu þar sem utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna og Rússlands ræddu m.a. stöðu mála í Sýrlandi og ýmis alþjóðamál. Var á fundinum lögð áhersla á áframhaldandi gott samstarf og samráð á sviði öryggis- og varnarmála. Ráðið lýsti jafnframt yfir stuðningi við sameiginlegt verkefni Efnavopnastofnunarinnar (OPCW) og Sameinuðu þjóðanna að eyðingu efnavopna í Sýrlandi. 

NATO-Georgíuráðið fundaði einnig í tengslum við fundinn en Georgía er eitt þeirra ríkja sem vinnur að aðild að Atlantshafsbandalaginu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum