Hoppa yfir valmynd
6. desember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra ræddi um öryggi almennings á fundi Varðbergs

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra flutti á dögunum erindi á fundi Varðbergs um öryggi almennings og nýjar áskoranir í öryggis og varnarmálum. Í erindi sínu ræddi ráðherra um öryggi borgaranna frá ýmsum hliðum, öryggi í samgöngum, á heimilum, öryggi þegar vá steðjar að, öryggi í netheimum og fleira.

Ráðherra sagði í upphafi að öryggistilfinning væri öllum mikilvæg og að allir vildu vera öruggir á vegum landsins, á göngu og í samskiptum einstaklinga sem og hins opinbera. Hún sagði ánægjulegt að sjá hversu lögreglan og Landhelgisgæslan nytu mikils trausts sem væri ríkur þáttur í að veita öllum öryggistilfinningu.

Þá minnti ráðherra á að fjárframlög til löggæslu yrði aukið um 500 milljónir króna í fjárlagafrumvarpi næsta árs og að sú aukning væri varanleg.

„Ég tel mikilvægt að fjölga lögreglumönnum, hraða rannsóknum og styrkja lögregluna enn frekar í starfi sínu, t.d. með útbúnaði og tækjum en tilgangur alls þessa er sem fyrr segir að auka öryggi almennings,” sagði ráðherra. Þá væri gert ráð fyrir sérstöku framlagi til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sérstöku framlagi til að standa undir öflugri landamæragæslu, auknu framlagi til rannsókna á kynferðisbrotum og gert er ráð fyrir 50 milljóna króna framlagi til að tryggja áframhaldandi veru lækna um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar.

Hanna Birna sagði að á næstu árum myndi reyna á viðbragðsgetu og þekkingu til vöktunar og björgunar á hafinu við landið vegna aukinnar skipaumferðar. Sagði ráðherra að ríkisstjórnin vildi kanna möguleika þess að koma á fót alþjóðlegri björgunarmiðstöð. Kvaðst ráðherra telja mikilvægt að  greina frekar umrætt hlutverk, viðbragðsgetu og möguleika Landhelgisgæslunnar í samstarfi við alþjóðastofnanir og grannríki.

Ráðherra fjallaði einnig um öryggi borgaranna gagnvart skipulagðri starfsemi erlendra glæpasamtaka hér á landi og sagði lögregluna hafa brugðist við af krafti í því verkefni og í lokin ræddi hún netöryggi og hversu nauðsynlegt væri að standa vörð um tölvu- og upplýsingaöryggi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum