Hoppa yfir valmynd
8. desember 2013 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag á ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunar

Martin Eyjólfsson á fundi WTO

Níunda ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) lauk aðfaranótt laugardagsins 7. desember með samkomulagi sem miðar að því að liðka fyrir alþjóðlegum viðskiptum og treysta fæðuöryggi þróunarríkja. 

Fundurinn fór fram á Balí í Indónesíu. Mikilvægasti þáttur samkomulagsins er gerð nýs samningsins um viðskiptaliprun en samningnum er ætlað að auðvelda tollafgreiðslu í viðskiptum með vörur á milli aðildarríkja stofnunarinnar. Standa vonir til þess að aukið gegnsæi og skýrari alþjóðlegar reglur um starfsemi tollayfirvalda geti orðið til þess að hraða tollafgreiðslu og draga talsvert úr kostnaði við milliríkjaviðskipti. Mælir samningurinn m.a. fyrir um mikilvægi þess að hraða sérstaklega tollafgreiðslu á matvörum sem hætt er á skemmdum en undir það ákvæði felldur t.d. tollafgreiðsla á sjávarafurðum.

Í samkomulaginu felst einnig að þróunarríkjum er veittur aukinn sveigjanleiki til að grípa til ráðstafana sem miða að því að auka fæðuöryggi þeirra. Einnig mælir samkomulagið um skýrari reglur um hvernig standa skuli að úthlutun tollkvóta hjá aðildarríkjum WTO. Þá náðist samkomulag um ýmsar ráðstafanir sem ætlað er að styðja við þróunarríkin í alþjóðlegum viðskiptum.

Samkomulagið er sögulegt því þetta er í fyrsta skiptið frá því að Alþjóðaviðskiptastofnunin hóf starfsemi sína árið 1995 sem bindandi samkomulag næst á meðal aðildarríkja þess. Frá árinu 2001 hafa farið fram samningaviðræður á meðal aðildarríkja WTO undir merki svonefndrar Doha-lotu og má segja að með samkomulaginu í Balí hafi tekist að ljúka fyrsta áfanganum í þeim viðræðum. Enn eru þó erfiðustu samningsefni Doha-lotunnar óútkljáð, m.a. krafa Íslands og fleiri ríkja um að settar verði frekari skorður við ríkisstyrki í sjávarútvegi.

Martin Eyjólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðaviðskiptastofnunni, fór fyrir sendinefnd Íslands á ráðherrafundinum og flutti hann m.a. ávarp á málþingi sem haldinn var í tengslum við fundinn þar sem hann lagði áherslu mikilvægi þess að þráðurinn yrði tekinn aftur í samningaviðræðum um reglur um ríkisstyrki í sjávarútvegi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira