Hoppa yfir valmynd
9. desember 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslensk börn efast um upplýsingar á netinu

Niðurstöður könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi.

SAFT_logo-300x104

SAFT stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Capacent Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar enn frekar á næstu vikum. Meginviðfangsefni  SAFT könnunarinnar er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Sambærilegar kannanir undir merkjum SAFT hafa verið gerðar hér á landi árin 2003, 2007 og 2009 og líkt og áður voru nú lagðar spurningar fyrir bæði börn og foreldra. Framkvæmdin í ár var þó með töluvert breyttu sniði frá því áður og niðurstöðurnar því ekki fyllilega samanburðarhæfar við fyrri mælingar á öllum þáttum.

3 af hverjum 10 telja sig vita meira um netið en foreldrarnir

  • Þegar íslensk börn í 4.-10. bekk voru spurð hvort þau teldu foreldra sína vita meira, minna eða jafnmikið um netið og þau sjálf kom í ljós að 34% töldu foreldra  sína vita meira um netið en þau sjálf og tæp 36% töldu þá vita nokkurn veginn jafnmikið um netið og þau sjálf.
  • Hins vegar töldu ríflega 3 af hverjum 10 sig vita meira um netið en foreldrar sínir og hækkaði það hlutfall eftir aldri. Þannig töldu tæplega 55% barna í 10. bekk sig vita meira um netið en foreldrar sínir á meðan sambærilegt hlutfall hjá 4. bekkingum var 9%.
  • Hlutfallslega fleiri strákar en stelpur töldu sig vita meira um netið en foreldrar sínir.

Mikill meirihluti telur að einungis sumar upplýsingar á netinu séu réttar og hægt að treysta þeim

  • Þegar börnin voru spurð hve mikið af upplýsingum á netinu þau teldu að væru réttar og hægt að treysta þeim kom í ljós að rúmlega 3 af hverjum 4 töldu að einungis sumar upplýsingar á netinu væru réttar og hægt að treysta þeim. Um 19% töldu að flestar upplýsingar á netinu væru áreiðanlegar og rétt innan 4% að engar upplýsingar á netinu væru réttar og hægt að treysta þeim.
  • Í kjölfarið voru börnin spurð hvort þau gerðu stundum eitthvað til að athuga hvort þær upplýsingar sem þau fyndu á netinu væru áreiðanlegar. Tæplega 14% sögðust oft athuga hvort upplýsingar sem þau fyndu á netinu væru réttar og hægt að treysta þeim. Tæp 29% sögðust stundum athuga það og aðeins fleiri eða 31% sögðust sjaldan athuga það. Ríflega fjórðungur sagðist hins vegar aldrei athuga hvort upplýsingar sem þau fyndu á netinu væru réttar og hægt að treysta þeim.
  • Ef litið er til þróunar frá fyrri mælingum má sjá að hlutfall þeirra barna sem telja að einungis sumar upplýsingar á netinu séu réttar hefur aukist. Árið 2003 var hlutfall þeirra tæplega 57% en nú er hlutfallið 76%.

Stelpur líklegri en strákar til að hafa áhyggjur af því að einhver sem þær þekki ekki hafi samband við þær á netinu   

  • Þegar börnin voru spurð um meginástæður þess að gefa ekki upp persónulegar upplýsingar á netinu sögðust flest, eða ríflega 67%, hafa áhyggjur af því að einhver sem þau þekktu ekki myndi hafa samband við þau.
  • Nánast jafn mörg börn sögðu að ástæðan fyrir því að gefa ekki upp persónulegar upplýsingar á netinu væri sú að þau vissu ekki hver myndi nota upplýsingarnar. Ríflega 58% sögðu foreldra sína hafa sagt sér að gera það ekki og 34% voru hrædd um að fá tölvuvírus.
  • Stelpur höfðu frekar en strákar áhyggjur af því að einhver sem þær þekktu ekki hefði samband við þær og sömuleiðis að þær vissu ekki hver myndi nota upplýsingarnar. Strákar voru hins vegar líklegri en stelpur til að nefna áhyggjur af því að fá tölvuvírus sem ástæðu fyrir því að gefa ekki upp persónulegar upplýsingar á netinu.
  • Yngri börn sögðu frekar en eldri börn að meginástæðan fyrir því að gefa ekki upp persónulegar upplýsingar á netinu væri að foreldrar þeirra hefðu sagt sér að gera það ekki. 

3 af hverjum 4 höfðu heyrt ráðleggingar um að ekki mætti hlaða niður ólöglegu efni á netinu

  • Spurð að því hvaða ráðleggingar um öryggi á netinu þau hefðu heyrt um nefndu flest börnin , eða 87%, að hitta aldrei ókunnuga. Tæplega 81% sagðist hafa heyrt að það mætti aldrei gefa upp heimilisfang. Tæplega 78% höfðu heyrt ráðleggingar um að hrella ekki aðra eða segja andstyggilega hluti um aðra og álíka margir nefndu að fara ekki inn á klámsíður/síður fyrir fullorðna.
  • Tæplega 75% sögðust hafa heyrt að þau mættu ekki hlaða niður ólöglegu efni á netinu og 72% að þau mættu ekki svara ljótum skilaboðum á netinu.
  • Töluvert færri, eða tæplega 41% sagðist hafa heyrt að það mætti aldrei gefa upp netfangið sitt, 34% að þau mættu aldrei gefa upp nafn sitt og 34% að þau ættu ekki að hlaða niður efni. Tæplega 24% sögðust hafa heyrt að þau mættu ekki setja inn mynd af sér.
  • Innan við 5% höfðu ekki heyrt neinar náðleggingar um öryggi á netinu.

Almennt séð, telur þú að barn þitt hafi lært að verja einkalíf sitt á netinu? – Svör foreldra

Þegar foreldrar voru spurðir hvort þeir teldu barnið sitt hafa lært að verja einkalíf sitt á netinu sögðu tæp 30% já, og naumlega 62% svöruðu já, að vissu leyti. Tæplega 9% svöruðu neitandi. Marktækur munur var á svörum foreldra eftir aldri barna. Foreldrar eldri barna voru líklegri en foreldrar yngri barna til að segja að barnið hafi lært að verja einkalíf sitt á netinu.

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni, er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Programme, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af framkvæmdastjórn ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli – landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins í formlegu samstarfi við ráðuneyti innanríkis, velferðar og mennta- og menningarmála, Rauða krossinn, Ríkislögreglustjóra og Barnaheill – Save the Children Iceland.  SAFT er í samstarfi við önnur lönd í Evrópu og deilir með þeim upplýsingum, aðferðafræði og þekkingu. Markmiðið er að til verði sameiginlegur evrópskur sjóður þekkingar og aðferðafræði á þessu sviði sem styður hið jákvæða og spornar gegn neikvæðum hliðum upplýsingatækninnar. 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum