Hoppa yfir valmynd
10. desember 2013 Félagsmálaráðuneytið

Vel mætt á kynningarfund um þróunarsjóð innflytjendamála

Fjölmenning
Fjölmenning

Þróunarsjóður innflytjendamála var til umfjöllunar á opnun fundi sem innflytjendaráð stóð fyrir í Iðnó í dag. Félags- og húsnæðismálaráðherra flutti ávarp og kynnti meðal annars þær áherslur sem lagðar verða til grundvallar verkefnum og styrkveitingum úr sjóðnum árið 2014.

Þróunarsjóður innflytjendamála hefur verið starfræktur frá árinu 2007. Hlutverk hans er að efla rannsóknir og styðja þróunarverkefni á sviði málefna innflytjenda með það að markmiði að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi og gera samfélaginu betur kleift að koma til móts við þá.

Á fundinum í dag var sagt frá þremur verkefnum sem fengið hafa styrk úr sjóðnum. Jóhann Björnsson kennari flutti erindi sem hann kallaði; Eru allir öðruvísi?, Sigríður Herdís Pálsdóttir, verkefnastjóri Rauða Krossins á Íslandi og móttökufulltrúi nýrra íbúa í Fjarðabyggð sagði frá stuðningi við foreldra sem eru innflytjendur og Sabine Leskopf frá WOMAN; samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi sagði frá verkefninu Taktu þátt + 30.

Í ávarpi sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti á fundinum lagði hún áherslu á mikilvægi þróunarsjóðsins, ekki síst þegar litið væri til þess að Íslendingar hefðu hvorki langa né mikla reynslu af móttöku fólks af erlendum uppruna: „Það er öllum mikilvægt að vel sé hugað að því fólki sem kemur hingað til lands og aðstæðum þess í hvívetna. Fólk kemur á mismunandi forsendum, sumir vegna atvinnu, aðrir á grundvelli hjónabands, einhverjir einfaldlega í ævintýraleit og svo eru þeir sem hafa þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðsátaka eða annarra hörmunga. Allt á þetta fólk sameiginlegt að bera væntingar til hins nýja upphafs á Íslandi og stjórnvöldum ber skylda til að taka vel á móti nýjum þegnum.

Þetta er okkar hlutverk. Við eigum að leitast við að veita innflytjendum tækifæri til jafns við aðra hér landi og gera þeim kleift að taka virkan þátt í samfélaginu. Að mörgu er að hyggja. Við þurfum að tryggja að þeir séu upplýstir um réttindi sín og skyldur til þess að koma í veg fyrir mismunun, það þarf að huga að því hvernig er staðið að því að meta menntun innflytjenda en alltof algengt er að innflytjendur fái ekki tækifæri til þess að nýta menntun sína í störfum við hæfi.

Það er sóun á hæfileikum þegar við nýtum okkur ekki þann auð sem fylgir innflytjendum og það er vanvirða við fólk að hindra það í að leggja af mörkum í samræmi við kunnáttu, færni og vilja“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra m.a. í ávarpi sínu.

Hún kynnti einnig áherslur við val á verkefnum og úthlutun styrkja úr þróunarsjóði innflytjenda á næsta ári en viðfangsefnin sem sérstaklega verður horft til eru; Þróunarverkefni sem styðja við félög sem hafa það að markmiði að efla virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu og vinna að hagsmunamálum þeirra. Þróunarverkefni og rannsóknir sem stuðla að bættri stöðu innflytjenda á vinnumarkaði og vinna gegn langtímaatvinnuleysi og Rannsóknir og verkefni sem varða stöðu innflytjenda á húsnæðismarkaði.

Glærur fyrirlesara:

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira