Hoppa yfir valmynd
11. desember 2013 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Mælt fyrir breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs

Úrgang má víða nota sem hráefni

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra mælti fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs á Alþingi á dögunum. Helstu breytingar sem lagðar eru til eru vegna innleiðingar á tilskipun ESB um úrgang og niðurfellingu ákveðinna ESB tilskipana. Þá eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð á rafhlöðum og rafgeymum, raf- og rafeindatækjum og drykkjarvöruumbúðum.

 Lagðar eru til breytingar á markmiðsákvæði laganna með hliðsjón af tilskipun 2008/98/EB um úrgang. Þá er lagt til að heimild sveitarfélaga til að innheimta gjald við meðhöndlun úrgangs verði breytt í skyldu og er það í samræmi við greiðslureglu umhverfisréttarins. Sömuleiðis er lögð til forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, m.a. við stefnumótun og áætlanagerð í málaflokknum þar sem áhersla er á að líta skuli á úrgang sem hráefni. Lagt er til að komið verði á sérstakri söfnun, m.a. á pappír, málmum, plasti og gleri, og gert er ráð fyrir að unnt verði að losa slíkan úrgang á aðgengilegan hátt við íbúðarhús í þéttbýli. Einnig er aukin áhersla á fræðslu til almennings og að Umhverfisstofnun og sveitarfélög hafi aukið hlutverk í því sambandi.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð vegna rafhlaðna, rafgeyma og raf- og rafeindatækja. Lagt er til að Umhverfisstofnun reki skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda rafhlaðna og rafgeyma og að úrvinnslugjald verði lagt á raf- og rafeindatæki sem Úrvinnslusjóður muni sjá um að tryggja söfnun og meðhöndlun á. Þá er lagt til að tekin verði upp framleiðendaábyrgð drykkjarvöruumbúða, m.a. með hliðsjón af aukinni áherslu á framleiðendaábyrgð á sviði úrgangsmála. Gert er ráð fyrir að ábyrgðin verði útfærð svipað og framleiðendaábyrgð á raf- og rafeindatækjum, þó með einfaldari hætti. Áfram verði greitt skilagjald þegar drykkjarvöruumbúðum er skilað, að lágmarki 15 kr. á hverja umbúðaeiningu. Vegna þessara breytinga er lagt til að lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur falli úr gildi þar sem kveðið verður á um framleiðendaábyrgð drykkjarvöruumbúða í lögum um meðhöndlun úrgangs verði frumvarpið að lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira