Hoppa yfir valmynd
12. desember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Frumvarp um frestun á nauðungarsölum lagt fram

Innanríkisráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu og mun frumvarpið fá flýtimeðferð á Alþingi. Frumvarpið mun gefa heimilum sem eru í alvarlegum fjárhagsvanda tækifæri til að meta hvort nýboðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna geti komið í veg fyrir nauðungarsölu. 

Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að þær tillögur sem þar eru settar fram verði komnar til framkvæmda um mitt árið 2014. Því er lagt til í frumvarpinu að nauðungarsölum verði frestað fram yfir þann tíma. Það er í samræmi við áður ítrekað gefnar yfirlýsingar um að slík frestun sé samhliða almennum aðgerðum til að vinna á skuldavanda heimilanna.

Samkvæmt frumvarpinu getur því gerðarþoli nauðungarsölu óskað þess að nauðungarsöluaðgerðum verði frestað til 1. júlí 2014 á húsnæði sem sannarlega telst vera heimili viðkomandi samkvæmt lögum. Lagt er því til að sýslumaður taki ekki ákvörðun um að hefja nauðungarsölu eigna fyrr en eftir þann tíma og á það við um allar eignir sem teljast heimili gerðarþola óháð því hvar þær eru staddar í ferlinu.  

Ráðherra sendi sýslumönnum landsins bréf í upphafi vikunnar þar sem óskað er eftir því að þeir upplýsi stærstu kröfuhafa um efni frumvarpsins með tilliti til þeirra heimila sem fara eiga í fullnustuaðgerðir vegna nauðungarsölu í þessari viku áður en frumvarpið verður samþykkt. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumönnum eru þau heimili sem um ræðir samtals fimm á þessu tímabili. Rétt er að taka fram að ekki er um sjálfvirka frestun nauðungarsölu að ræða heldur verður gerðarþoli sjálfur að óska eftir slíkri frestun.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum