Ný skrifstofa menningararfs í forsætisráðuneytinu

Á vegum forsætisráðuneytisins hefur að undanförnu verið unnið að skipulagsbreytingum vegna flutnings verkefna frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Það eru verkefni er varða vernd menningararfs Íslands. Sett verður á fót ný skrifstofa menningararfs til þess að vinna að þessum nýju verkefnum í ráðuneytinu og ákveðið hefur verið að Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, verði á grundvelli 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins flutt í embætti skrifstofustjóra á hinni nýju skrifstofu til eins árs frá 1. febrúar 2014. Margrét verður í leyfi frá Þjóðminjasafni Íslands á sama tíma.
Undir nýja skrifstofu menningararfs falla m.a. verkefni er lúta að vernd menningararfsins, þjóðarverðmæta, húsa og mannvirkja og menningartengdrar byggðar.
Í fjarveru Margrétar verða Anna Guðný Ásgeirsdóttir og dr. Anna Lísa Rúnarsdóttir settar til að gegna embætti Þjóðminjavarðar.