Hoppa yfir valmynd
23. desember 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nú er Gunna á nýju skónum

Vörukaup í desembermánuði sem hlutfall af ársmeðaltali (=100)
Vörukaup í desembermánuði sem hlutfall af ársmeðaltali (=100)

Aðventan skapar ágætt mótvægi við minnkandi dagsbirtu þótt margir starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins séu oft á tíðum býsna uppteknir á þessum árstíma við að fylgja eftir þeim mikilvægu frumvörpum sem frá ráðuneytinu koma og þurfa nauðsynlega að verða að lögum fyrir áramót.  Íslendingar gera sér gjarna dagamun á þessum árstíma og svo þarf að huga að undirbúningi jólahátíðarinnar sjálfrar með tilheyrandi gjöfum og öðru tilstandi. Á jólaföstunni hugum við gjarna að þeim sem minna mega sín, bæði nær og fjær, en mest er þó áherslan á þá sem standa okkur næst.

Jólahald er í föstum skorðum hjá flestum og það er meðal annars hægt að sjá í tölum um það hvað við gerum við peningana okkar á þessum tíma samanborið við aðra árstíma. Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um hvernig við gerum hlutina öðru vísi um jólin.  Myndin byggir á upplýsingum frá Rannsóknasetri verslunarinnar. 

Myndin sýnir hvað verslun með tilteknar vörur er umfangsmikil í desembermánuði ár hvert miðað við ársmeðaltal viðkomandi árs. Þannig sést að á árunum fram til 2007 var umfang verslunar í flokknum dagvara um 30% meira í desembermánuði en sem nam ársmeðaltalinu. Hið sama gilti um kaup á áfengi þar sem kaupin í jólamánuðinum voru milli 50 og 60% umfram ársmeðaltalið. Þetta eru þeir tveir vöruflokkar þar sem upplýsingar ná yfir lengstan tíma. Jólamánuðurinn árið 2008 var töluvert öðru vísi en árin þar á undan - þarna var hrunið nýskollið á og enginn vissi mikið um það sem framundan var. Engu að síður var verslun með þessar vörur meiri en meðaltal ársins þótt boginn væri ekki spenntur eins hátt og verið hafði á árunum þar á undan. Þarna fara einnig að birtast tölur um aðra vöruflokka - verslun með föt og skó hafði greinilega verið mjög mikil í jólamánuðinum árið 2007 en lét verulega á sjá við hrunið. 

Eftir því sem íslenskt samfélag hefur rétt úr kútnum hefur sótt í sama far og greinilegt að landsmenn vilja gera vel við sig á jólunum. Árið 2012 voru bæði fata- og skókaup hér innanlands aftur komin á svipaðar slóðir og fyrir hrun. Áfengiskaup eru töluvert minna umfram ársmeðaltalið og sennilega er það mörgum gleðiefni. Glöggir lesendur geta þó séð að heldur hafði dregið úr áherslu á áfengiskaup í jólamánuðinum umfram aðra mánuði alveg frá 2005. Sömu sögu er að segja um dagvöruverslun; hún er minna umfram meðaltal ársins en verið hafði. Nú hafa húsgagnakaup bæst í hópinn og þau eru einnig umfram ársmeðaltal í jólamánuðinum.  Styttri tímaraðir  eru til um kaup á raftækjum og þar ber allt að sama brunni:  Við kaupum miklu meira af þeim í kring um jólin en aðra mánuði ársins. Til dæmis var sala á farsímum tvöföld í desember í fyrra miðað við meðaltal alls ársins. Engin önnur vara sem Rannsóknasetur verslunarinnar birtir upplýsingar um er eins tengd jólamánuðinum og farsímar. Hins vegar telur setrið að yfir helmingur af veltu íslenskra bókaforlaga sé í desember þótt ekki séu birtar tölur um það.

Í ár hefur efnahagslífið haldið áfram að styrkjast og því má ganga út frá því að í þessum mánuði verði mikið keypt af þeim vörum sem hafa sterkustu tenginguna við jólahátíðina. Þess vegna má gera ráð fyrir því að Gunna verði á nýju skónum um jólin og að síðu buxurnar hans Sigga hafi verið keyptar í þessum mánuði. Hvort þau eru bæði með snjallsíma sem þau fengu í jólagjöf í fyrra vitum við ekki.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum