Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Rannsóknasetur verslunarinnar er nú sjálfseignarstofnun

Rannsóknasetur verslunarinnar
Rannsóknasetur verslunarinnar
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur nú verið gert að sérstakri sjálfseignarstofnun. Með því hefur grunnur að starfseminni verið styrktur til muna og stofnendur horfa til þess að rannsóknir í þágu verslunar- og þjónustugreina verði efldar enn frekar.

Þeir sem standa að stofnun sjálfseignarstofnunarinnar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, Samtök verslunar og þjónustu, VR, Kaupmannasamtök Íslands og Bílgreinasambandið. Þannig er eigendasamsetningin mynduð af stjórnvöldum, háskóla, ásamt stærstu samtökum launþega og atvinnurekenda sem tengjast verslun og þjónustu. Formaður stjórnar er Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.

Með stofnun sjálfseignarstofnunar RSV verður reksturinn aðskilinn frá Háskólanum á Bifröst. En hingað til hefur setrið verið rekið sem eining innan háskólans.

Rannsóknasetur verslunarinnar var stofnað árið 2004 að frumkvæði fyrirtækja í verslun og hefur því á þessu ári verið starfrækt í 10 ár. Mikil gagnasöfnun og úrvinnsla hagtalna hefur átt sér stað á þessum tíma eins og sjá má á heimasíðu Rannsóknasetursins, www.rsv.is. Auk mánaðarlegrar birtingar á veltuvísitölu helstu flokka smásöluverslunar má nefna reglulega birtingu á heimsmarkaðsverði á hrávöru og birtingu á sundurliðaðri greiðslukortaveltu erlendra ferðamanna hér á landi. Auk þess eru stundaðar rannsóknir og úttektir á fjölmörgum sviðum verslunar og þjónustu og gefnar út hagtölur um þróun í greininni.

Atvinnutengdar rannsóknir á Íslandi snúa mestmegnis að framleiðslu- og tæknigreinum, enda um að ræða greinar sem skipta miklu máli við tekjuöflun þjóðarinnar. Hins vegar hefur minni áhersla verið lögð á rannsóknir tengdar þjónustugreinum eins og verslun. Þó skiptir sú atvinnugrein síst minna máli þegar horft er til þjóðarhags. Öll hagkvæmni í verslun og viðskiptum leiðir af sér hagræðingu, sparnað, aukin gæði, lægri útgjöld fyrir neytendur og auka atvinnusköpun. Þess vegna er alveg jafn mikilvægt að hlú að fagmennsku í verslun og eins og framleiðslu.

Auk þeirra verkefna sem RSV stundar núna verður á næstunni lögð aukin áhersla á verkefni sem snerta ferðaþjónustu, enda eru verslun og ferðaþjónustu samofin. Meðal annarra verkefna á nýju ári má nefna rannsókn á íslenskri netverslun, starfsmenntamál verslunarfólks auk útgáfu á Árbók bílgreina.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta