Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Löggiltum endurskoðendum fjölgar um átta!

Nýbakaðir löggiltir endurskoðendur
Nýbakaðir löggiltir endurskoðendur

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fékk í dag það ánægjulega hlutverk að afhenda átta nýbökuðum löggiltum endurskoðendum prófskírteini sín við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu.





Ræða Ragnheiðar Elínar við útskriftina.                 ATH: Talað orð gildir


Ágætu útskriftarnemar og aðrir gestir.


Í dag er full ástæða til að fagna þegar átta nýir einstaklingar bætast í hóp löggiltra endurskoðenda hér á landi. Þið sem nú hafið lokið öllum prófunum með tilskilinni einkunn og uppfyllið skilyrði laga um endurskoðendur eruð frá og með deginum í dag orðnir hluti af afar mikilvægri keðju heilbrigðs viðskiptalífs.

Á undanförnum árum hafa kröfur til endurskoðenda verið að aukast mikið og á sama tíma hefur umhverfi, hlutverk og ábyrgð ykkar starfsstéttar verið mikið til umræðu bæði hérlendis og erlendis og fyrirsjáanlegt að svo verði áfram á næstu árum.

Þessar auknu kröfur og umræða hefur öll miðað að því að auka tiltrú fjárfesta og almennings á endurskoðuðum ársreikningum og á ykkar störfum.

Þið eruð samkvæmt lagabókstafnum sá hlekkur keðjunnar sem á að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum og mikil ábyrgð hvílir á ykkar herðum. Hvað þessi mál varðar er eins og gefur að skilja ákaflega mikilvægt að lögum og reglum sé fylgt og þar kemur inn ykkar þekking og reynsla hvað varðar reikningsskil fyrirtækja. Þar er ekki nóg að „tikka í boxin“ því endurskoðendur skulu með störfum sínum vera eftirtektarsamir og gagnrýnir í öllum sínum störfum. Það er ykkar hlutverk að hafa varkárni, óhæði og almennt gott siðferði að leiðarljósi í þágu heilbrigðs viðskiptaumhverfis og samfélagsins alls.

Þeir sem lesa ársreikninga félaga reiða sig á að áritun endurskoðanda, um að ársreikningurinn sýni glögga mynd af rekstri félagsins, sé rétt.  Ársreikningurinn og þær upplýsingar sem koma fram í honum eru hinar opinberu fjárhagsupplýsingar sem notaðar eru í viðskiptum og mati einstaklinga á afkomu og fjárhagsstöðu félaga.  Það fylgir því ábyrgð að árita ársreikning og þessi ábyrgð er nú ykkar.

Frá og með deginum í dag eruð þið orðin hluti af stétt 324 einstaklinga sem hlotið hafa löggildingu sem endurskoðendur. Þið hafið nú undirritað drengskaparheit um að þið munið af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna rækja það starf sem löggildingin veitir ykkur rétt til og hlíta lögum og öðrum reglum sem starfið varða. Í framhaldi af því eru ykkur veitt réttindi með löggildingu til endurskoðunarstarfa og rétt til að kalla ykkur endurskoðendur.

Eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar frá síðasta vori hefur verið að fara í gegnum allt regluverk sem snýr að atvinnulífinu með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Markmiðið er meðal annars að draga úr skrifræði og bæta og einfalda samskiptin við hið opinbera.

Í þessu samhengi er nú verið að endurskoða lög um endurskoðendur og lög einkahlutafélög, hlutafélög og lög um ársreikninga. Frumvörp þessa efnis verða lögð fram á yfirstandandi þingi. Jafnhliða þessu ferli hafa komið fram fjöldi ábendinga úr atvinnulífinu og viðskiptaumhverfinu almennt um atriði sem betur mega fara og eru þau mál til skoðunar í ráðuneytinu í tengslum við einföldun regluverks atvinnulífsins. Í þessu samhengi eru menn ekki síst að huga að þeim upplýsingum sem skilað er inn, m.a. með ársreikningum, og þörfina fyrir sumar þeirra.

Ágætu endurskoðendur og góðir gestir.

Þessi orð mín eru ætluð sem veganesti nú á þessum stóru tímamótum í ykkar lífi. Ég óskar ykkur velfarnaðar í störfum ykkar og ítreka hamingjuóskir í tilefni þessa áfanga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta