Búðarhálslína og nýtt tengivirki Landsnets formlega tekin í notkun
Prófanir á vélbúnaði virkjunarinnar fara nú í hönd og hefst raforkuframleiðsla inn á kerfið innan tíðar. Búðarhálstengivirkið er hannað með það fyrir augum að hægt verði að stækka það síðar, verði t.d. ný flutningslína til Norðurlands, svokölluð Norður-suðurtenging, byggð.
Þegar ákveðið var að hefjast handa við byggingu Búðarhálsvirkjunar að nýju, eftir margra ára hlé, voru hönnunarforsendur tengivirkisins endurskoðaðar frá grunni hjá Landsneti með það að markmiði að lækka framkvæmdakostnað og aðlaga mannvirkin betur að umhverfinu. Breytingar voru einnig gerðar á lagningu Búðarhálslínu sem spöruðu umtalsverða fjármuni. Má nefna sem dæmi að kostnaður við gerð tengivirkisins varð á endanum um helmingi lægri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.
Búðarhálslína 1 er alls um 5,6 km löng 220 kV háspennulína en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir um 17 km langri línu. Hún liggur frá tengivirkinu við Búðarháls að Hrauneyjarfosslínu á Langöldu, þar sem hún er T-tengd inn á meginflutningskerfi Landsnets. Heildarkostnaður við byggingu Búðarhálslínu 1 og tengivirkisins við Búðarháls er um einn milljarður króna.
Ræða ráðherra
