Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Búðarhálslína og nýtt tengivirki Landsnets formlega tekin í notkun

Tengivirkið spennusett
Nýtt tengivirki Landsnets við Búðarháls og Búðarhálslína 1 voru tekin formlega í notkun þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra orkumála spennusetti virkið í dag - og tengdi þar með Búðarhálsvirkjun við meginflutningskerfi Landsnets. Við það tækifæri lagði hún áherslu á  mikilvægi afhendingaröryggi raforku sem væri ein af grunnstoðunum í orkumálum Íslands sem og atvinnuuppbyggingu. Styrking flutningskerfisins sé mikilvægur þáttur í að gera fyrirtækjum færi á að færa orkunotkun sína úr olíu yfir í innlenda orkuvæna orkugjafa. Þetta minnkar losun gróðurhúsalofttegunda, auðveldar Íslandi að standa við alþjóðlegar skuldbindingar og er hagkvæmt fyrir þjóðarbúið.

Prófanir á vélbúnaði virkjunarinnar fara nú í hönd og hefst raforkuframleiðsla inn á kerfið innan tíðar. Búðarhálstengivirkið er hannað með það fyrir augum að hægt verði að stækka það síðar, verði t.d. ný flutningslína til Norðurlands, svokölluð Norður-suðurtenging, byggð.

Þegar ákveðið var að hefjast handa við byggingu Búðarhálsvirkjunar að nýju, eftir margra ára hlé, voru hönnunarforsendur tengivirkisins endurskoðaðar frá grunni hjá Landsneti með það að markmiði að lækka framkvæmdakostnað og aðlaga mannvirkin betur að umhverfinu. Breytingar voru einnig gerðar á lagningu Búðarhálslínu sem spöruðu umtalsverða fjármuni. Má nefna sem dæmi að kostnaður við gerð tengivirkisins varð á endanum um helmingi lægri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.

Búðarhálslína 1 er alls um 5,6 km löng 220 kV háspennulína en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir um 17 km langri línu. Hún liggur frá tengivirkinu við Búðarháls að Hrauneyjarfosslínu á Langöldu, þar sem hún er T-tengd inn á meginflutningskerfi Landsnets. Heildarkostnaður við byggingu Búðarhálslínu 1 og tengivirkisins við Búðarháls er um einn milljarður króna.

Ræða ráðherra

Búðarhálsvirkjun

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta