Dreifingarkostnaður raforku í þéttbýli og dreifbýli skal jafnaður - samkvæmt lagafrumvarpi iðnaðarráðherra
Raunkostnaður við dreifingu raforku er mun meiri í dreifbýli en í þéttbýli og eru gjaldskrár veitna því talsvert hærri í dreifbýli. Að óbreyttu liggur fyrir að hækka þurfi verulega taxta í dreifbýli á næstunni þar sem færri og færri standa undir kostnaði við það kerfi, á meðan notendum fjölgar í þéttbýli og þar með hagkvæmni þess kerfis. Framlög á fjárlögum til að jafna þennan mun hafa verið óbreytt frá árinu 2005 og vantar um 760 m.kr. upp á til að tryggja fulla jöfnun.
Með frumvarpinu er brugðist við þessu og kveðið á um að tekið verði upp, á þremur árum, sérstakt jöfnunargjald raforku til að fjármagna fulla jöfnun á dreifikostnaði raforku. Gjaldið er lagt á þá raforku sem fer um dreifikerfi dreifiveitna.
Heildaráhrif frumvarpsins eru þau að raforkukostnaður (bæði almenn raforkunotkun og rafhitun húsnæðis) lækkar í dreifbýli um tæp 9%, en hækkar í þéttbýli um 1% að meðaltali. Ekki er þó um að ræða hækkun á rafhitun í þéttbýli.
Verði frumvarpið að lögum mun það leiða til breytinga á gjaldskrám dreifiveitna. Í því skyni að brýna orkufyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til að tryggja verðlagsstöðugleika í landinu, í tengslum við nýgerða kjarasamninga, hefur ráðherra ritað orkufyrirtækjum bréf þar sem þau eru hvött til að gæta ítrasta aðhalds og varkárni við gjaldskrárhækkanir.