UMFÍ annast framkvæmd á æskulýðshluta Erasmus+
Mennta- og menningarmálaráðuneytið felur Ungmennafélagi Íslands að annast framkvæmd á æskulýðshluta Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ákveðið að fela Ungmennafélagi Íslands að annast framkvæmd á æskulýðshluta Erasmus+ áætlunar Evrópusambandsins og Rannís sér um þann hluta áætlunarinnar sem snýr að menntamálum.
Ungmennafélag Íslands hefur rekið Evrópu unga fólksins, landsskrifstofu ungmennaáætlunar Evrópusambandsins frá 1. janúar 2007 en nýja áætlunin, Erasmus+ tók til starfa 1. janúar 2014 og leysir fyrri áætlun af hólmi.
Tækifæri til þess að fjármagna verkefni tengd ungu fólki aukast til muna með tilkomu Erasmus+ því heildarstyrkfé til æskulýðsgeirans fer úr 985.000 evra árin 2007-2013 í allt að 1.470.000 evra árin 2014-2020. Þá verður í fyrsta skipti mögulegt að sækja um styrki fyrir svokölluð stefnumiðuð samstarfsverkefni, en þeim er ætlað að efla frumkvöðlastarf innan æskulýðsgeirans á Íslandi. Skrifstofan sem mun áfram bera heitið Evrópa unga fólksins er til húsa í húsakynnum Ungmennafélags Íslands í Sigtúni 42.