Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2014 Félagsmálaráðuneytið

Mál nr. 11/2013: Dómur frá 3. febrúar 2014

Ár 2014, mánudaginn 3. febrúar, er í Félagsdómi í málinu nr. 11/2013:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

f.h. Fjólu Ingimundardóttur

gegn

íslenska ríkinu

vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

kveðinn upp svofelldur

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 7. janúar 2014.

Málið dæma Sigurður G. Gíslason, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Elín Blöndal.

Stefnandi er Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, kt. 570194-2409, Suðurlandsbraut 22, Reykjavík, f.h. Fjólu Ingimundardóttur, kt. 190859-4529, Tjaldhólum 3, Selfossi.

Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, Arnarhvoli, Reykjavík, vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, kt. 670804-2750, Árvegi, Selfossi.

Dómkröfur stefnanda

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefndi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hafi brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs með gildistíma 11. maí 2011 til 31. mars 2014, sbr. samkomulag dags. 4. júní 2011 um breytingar og framlengingu á kjarasamningi, með því að hafa ekki greitt Fjólu Ingimundardóttur, kt. 190859-4529, hjúkrunarfræðingi hjá stefnda, fæðispeninga þegar Fjóla var á vakt en matstofa vinnustaðar ekki opin, frá og með 1. mars 2012.

Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda

Stefndi gerir þær dómkröfur að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Málavextir

Stefnandi höfðar málið vegna Fjólu Ingimundardóttur, sem er félagsmaður í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.  Hefur stefnandi starfað sem hjúkrunarfræðingur hjá stefnda, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, og er ráðningarsamningur frá 9. mars 2006, en um launagreiðslur og starfskjör fer skv. kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Fjóla er að störfum á kvöldvöktum annars vegar frá kl. 15.30 til 23.30, þegar hún sinnir vaktavinnu á hand- og lyflækningadeild, og hins vegar milli 16.00 og 24.00 þegar hún vinnur á vöktum á bráðamóttöku stefnda. Fjóla vinnur á næturvöktum annars vegar milli kl. 23.00 til 8.30, þegar hún tekur vaktir á hand- og lyflækningadeild, en hins vegar kl. 24.00 til 8.00, þegar hún tekur vaktir á bráðamóttöku.

Stefnandi kveður að matstofa stefnda sé opin milli kl. 08:00 og 15:00 á daginn. Eftir þann tíma sé hún lokuð. Sé því ljóst að matstofan sé lokuð á þeim tíma sem Fjóla er á kvöld- eða næturvöktum.

Stefndi kveður að framkvæmdin sé þannig að starfsmönnum gefist kostur á að panta mat fyrir kvöld- eða næturvakt á innra neti stefnda en pöntun þurfi að berast fyrir kl. 13. Þar séu einnig matseðlar fyrir heilan mánuð í einu. Matarbakkinn fari upp á deild viðkomandi starfsmanns með kvöldmatnum fyrir deildina. Á öllum deildum sé hægt að hita matinn upp og aðstaða til að setjast niður og borða. Á hverri deild sé kaffistofa, síðan sé býtibúr með ísskáp, borði, kaffikönnu, leirtaui og því sem fylgi venjulegu eldhúsi. Matsalurinn sem tilheyri eldhúsinu sé alltaf opinn og hægt sé að matast þar ef fólk vilji. Réttur dagsins kosti 4 miða (400 krónur) á kvöldin en 5 miða á daginn. Rétti dagsins fylgi súpa eða grautur. Hægt sé að panta efni í samloku til að hita á deildinni.

Fjóla leitaði til stefnda með kröfu um greiðslu fæðispeninga vegna kvöld- og næturvakta sem hún hefur sinnt í starfi sínu hjá stefnda en því var hafnað og hinn 17. apríl 2013 sendi stefnandi tölvupóst til forstjóra stefnda og fór þar formlega fram á túlkun stefnda á umræddum kjarasamningsákvæðum. Í svari forstjóra stefnda 19. apríl 2013 kom fram að stefndi hafi fengið þá túlkun frá fjármálaráðuneytinu að í ljósi fyrirkomulagsins og þar sem að aðstaða væri til að matast, eigi ákvæðið ekki við.

Við aðalmeðferð gáfu skýrslur Fjóla Ingimundardóttir, Cecilie B. H. Björgvinsdóttir sviðsstjóri kjara- og réttindamála hjá stefnanda, Esther Óskarsdóttir skrifstofustjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og staðgengill forstjóra þar, Anna María Snorradóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands auk Sigurbjargar Jónsdóttur hjúkrunarfræðings hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og trúnaðarmaður á hand- og lyflækningadeild þar, sem gaf skýrslu gegnum síma.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja stefnukröfur sínar á því að stefndi hafi brotið í bága við ákvæði kafla 3.4, um fæði og mötuneyti í kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, nánar tiltekið gr. 3.4.3 með því að stefndi hafi hafnað því að greiða Fjólu Ingimundardóttur fæðispeninga þegar hún var við störf á kvöld- og næturvöktum og matstofa stefnda lokuð. Matstofa stefnda sé opin milli kl. 8 og 15 á daginn. Eftir þann tíma sé hún lokuð. Fjóla Ingimundardóttir sé að störfum á kvöldvöktum milli annars vegar kl. 15.30 til 23.30, þegar hún taki vaktir á hand- og lyflækningadeild, og hins vegar milli 16.00 og 24.00, þegar hún taki vaktir á bráðamóttöku stefnda. Fjóla sé að störfum á næturvöktum milli annars vegar kl. 23.00 til 8.30, þegar hún taki vaktir á hand- og lyflækningadeild, en hins vegar kl. 24.00 til 8.00, þegar hún taki vaktir á bráðamóttöku. Sé því ljóst að matstofan sé lokuð á þeim tíma sem að Fjóla er á kvöld- eða næturvöktum. Öll skilyrði í gr. 3.4.3 til greiðslu fæðispeninga séu uppfyllt, þ.m.t. að matstofa sé lokuð, starfsmaður á vakt á lokunartíma og skilyrði uppfyllt varðandi tímasetningu vinnuskyldu og matartíma. Umrætt ákvæði í kjarasamningi hafi tekið gildi hinn 1. mars 2012 og sé því dómkrafa við það miðuð, en Fjóla hafi enga fæðispeninga fengið greidda á því tímabili.

Stefnandi bendir á að kjarasamningurinn tilvísaði feli í sér lágmarkskjör sem að stefnda sem vinnuveitanda beri að virða, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  

Stefnandi kveðst mótmæla þeirri túlkun sem stefndi hafi lagt í gr. 3.4.3 í kjarasamningi. Skylda til greiðslu fæðispeninga komi til þegar að „matstofa vinnustaðar er ekki opin“, svo sem segi orðrétt í ákvæðinu. Það hvort að Fjóla og aðrir starfsmenn geti pantað mat fyrirfram, á þeim tímum þegar að matstofa sé opin, og neytt matarins síðar á vaktartíma gildi einu í þessu sambandi. Sú túlkun sé ekki í samræmi við skýrt orðalag ákvæðisins, um að greiðsluskylda verði virk ef matstofa er ekki opin.

Stefnandi tekur fram að stefndi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sé undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra, sbr. lög nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, sbr. einnig reglugerð nr. 785/2007 um heilbrigðisumdæmi, með síðari breytingum. Sé því íslenska ríkinu stefnt vegna heilbrigðisstofnunarinnar.

Auk framangreindra lagatilvísana kveðst stefnandi byggja kröfur sínar fyrst og fremst á gildandi kjarasamningi aðila, sbr. kjarasamning með gildistíma 11. maí 2011 til 31. mars 2014, sbr. samkomulag dags. 4. júní 2011 um breytingar og framlengingu á kjarasamningi. Stefnandi vísar einnig til almennra reglna um skuldbindingargildi samninga og meginreglna vinnuréttar. Þá sé vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, til laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þ.m.t. 3. tl. 1. mgr. 26. gr., sbr. einnig IV. kafla, þ.m.t. 44. gr., laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla l. nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggir á l. nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt sé honum nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn umræddu ákvæði í grein 3.4.3 í kjarasamningi og mótmælir túlkun stefnanda á ákvæðinu.

Samkvæmt grein 3.4.1 í téðum samningi teljist matstofa sá staður þar sem hægt sé að bera fram heitan eða kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum.

Stefndi kveður að þeim sem vinni á bráðamóttökunni gefist sami kostur á að panta mat og hann sé þá afhentur í matsal stefnda sem sé á sömu hæð í húsinu. Bæði sé hægt að hita mat í matsalnum og á kaffistofu bráðamóttökunnar. Á þessum stöðum sé hægt að matast. Þá sé kaffi á öllum deildum.

Með vísan til ofangreinds byggir stefndi á því að matstofa stefnda sé opin og því sé skilyrði greinarinnar um að matstofan sé ekki opin, ekki til staðar.  Stefndi tekur fram að öllum sjónarmiðum stefnanda um þetta atriði sé mótmælt.  Eins og fram komi sé matstofan eða matsalurinn alltaf opin og hægt að matast þar ef fólk vilji. Stefnandi geti, eins og áður hafi komið fram, pantað mat á innra neti stefnda  og ef stefnandi kjósi geti hún borðað í matstofunni en þar sé hægt að hita matinn. Þá geti stefnandi einnig kosið að borða matinn á deildinni en þar sé aðstaða til að setjast niður og borða. Eins og áður hafi komið fram þá sé á hverri deild kaffistofa og býtibúr með ísskáp, borði, kaffikönnu, leirtaui og því sem fylgi venjulegu eldhúsi. Samkvæmt framangreindri skilgreiningu sé matstofa sá staður þar sem hægt sé að bera fram heitan eða kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum. Ekki komi fram þar að á matstofunni þurfi að vera þjónusta enda geti maturinn verið kaldur og aðfluttur. Samkvæmt öllu framangreindu sé ljóst að ekki sé uppfyllt skilyrði greinarinnar að matstofa sé ekki opin.

Stefndi kveður að stefnandi byggi á því í stefnu að matstofa sé lokuð, en því mótmæli stefndi.

Stefndi tekur fram að lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda hafi ekki verið talin eiga við um ríkisstarfsmenn. Frumvarpið hafi verið samið af svonefndri 8-manna lífeyrisnefnd ASÍ, FFSÍ, VSÍ og VSS. Þau muni eingöngu hafa verið hugsuð fyrir starfsmenn almenna vinnumarkaðarins samkvæmt yfirlýsingu sem gefin hafi verið út í tengslum við kjarasamninga þeirra. Því til stuðnings megi benda á samkomulag ríkisstjórnarinnar og BSRB um málefni opinberra starfsmanna, dags. 20. ágúst 1980.

Um málskostnaðarkröfu stefnda í málinu vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938.

Stefndi mótmælir öllum kröfum og málsástæðum stefnanda.

Auk framangreindra lagaraka vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttar.

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm, sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Dómkröfur stefnanda lúta að því að viðurkennt verði að stefndi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hafi brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi aðila með því að hafa ekki greitt Fjólu Ingimundardóttur, hjúkrunarfræðingi hjá stefnda, fæðispeninga þegar Fjóla var á vakt en matstofa vinnustaðar ekki opin, frá og með 1. mars 2012.  Stefndi hefur krafist sýknu af kröfum stefnanda og vísar til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði þess að greiða beri Fjólu Ingimundardóttur hina umdeildu fæðispeninga.  Byggir stefndi á því að ekki hafi verið brotið gegn umræddu ákvæði.

Í hinni tilvitnuðu grein 3.4.3 í kjarasamningi segir að „starfsmaður á vakt þegar matstofa vinnustaðar er ekki opin skal fá það bætt með fæðispeningum sem nema 380 kr. enda sé vinnuskylda starfsmanns a.m.k. 1 klst. fyrir og 1 klst. eftir umsamda matartíma á viðkomandi vakt sbr. tímasetningar matartíma í gr. 3.2.1.“  Er í málinu óumdeilt að skilyrði um tímasetningu vinnuskyldunnar eru uppfyllt og ekki er af hálfu stefnda byggt á því að Fjóla Ingimundardóttir eigi ekki fastan matartíma og kemur það ekki til skoðunar við úrlausn málsins.

Í grein 3.4.1 í téðum kjarasamningi segir um matstofu og aðgang að henni:

„Starfsmenn sem eru við störf á föstum vinnustað a.m.k. 2 klst. fyrir matarhlé og aðrar 2 klst. eftir matarhlé, skulu hafa aðgang að matstofu eftir því sem við verður komið, sbr. gr. 3.4.2. Matstofa telst sá staður í þessu tilviki þar sem hægt er að bera fram heitan eða kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum. Á þeim vinnustöðum þar sem ekki er aðstaða til að matast, skal reynt að tryggja starfsmönnum aðgang að nærliggjandi matstofum á vegum vinnuveitanda. Húsakynni skulu vera í samræmi við heilbrigðisreglugerðir. Vinnuveitandi greiði kostnað við rekstur mötuneytis. Starfsmenn greiði hins vegar efnisverð matarins.“  Er hugtakið matstofa þannig skilgreint í samningi aðila sem sá staður „þar sem hægt er að bera fram heitan eða kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum“.

Stefnandi byggir þannig á því að þar sem matstofa hafi ekki verið opin hafi Heilbrigðisstofnun Suðurlands borið að greiða Fjólu Ingimundardóttur fæðispeningana, en stefndi byggir á því að matstofa hafi ekki verið lokuð og beri því ekki að greiða hina umdeildu fæðispeninga.

Í greinargerð sinni lýsir stefndi því hvernig aðstaða starfsmanna er til að neyta matar síns. Starfsmenn sem vinna utan þess tíma þegar eldhúsið er opið geti pantað mat fyrir kvöld- eða næturvakt á innra neti stefnda en pöntun þurfi að berast fyrir kl. 13.  Fram kom raunar hjá Fjólu Ingimundardóttur við aðalmeðferð að téð innra net sé aðeins aðgengilegt úr tölvum á vinnustaðnum og naut það stuðnings í framburði vitnisins Sigurbjargar Jónsdóttur, en vitnið Anna María Snorradóttir bar á annan veg um þetta.  Kveður stefndi að á téðu innra neti séu birtir matseðlar fyrir heilan mánuð í einu. Matarbakki sem starfsmaður panti þannig fari upp á deild viðkomandi starfsmanns með kvöldmatnum fyrir deildina. Á öllum deildum sé hægt að hita matinn upp og aðstaða til að setjast niður og borða. Á hverri deild sé kaffistofa, síðan sé býtibúr með ísskáp, borði, kaffikönnu, leirtaui og því sem fylgi venjulegu eldhúsi. Matsalurinn sem tilheyri eldhúsinu sé alltaf opinn og hægt sé að matast þar ef fólk vilji.

Fram kom við aðalmeðferð að eldhúsi sé læst kl. 15:00 og eftir það séu öll áhöld, s.s. glös, diskar og hnífapör ekki aðgengileg en aðeins séu í matsal borð og stólar, en t.d. ekki aðgangur að rennandi vatni.  Fram kom að á bráðamóttöku, sem er á sömu hæð og borðsalur og eldhús, sé lítil setustofa með sófa, sófaborði,  örbylgjuofni og kaffivél.  Þá séu vaskar og rennandi vatn á deildinni.  Deildin er á sömu hæð og matsalur en þar á milli eru 20-50 metrar samkvæmt því sem fram kom við aðalmeðferð og er biðstofa sjúklinga á milli.  Þá kom fram að á hand- og lyflækningadeild á efri hæð hússins sé býtibúr með áhöldum eins og í eldhúsi, ásamt örbylgjuofni og ísskáp.  Þar er borðbúnaður og hægt að sitja við borð og matast.  Þá hefur ein sjúkrastofa verið gerð að kaffistofu á deildinni og er hún einnig aðgengileg fyrir starfsmenn.  Þá kom fram hjá vitninu Önnu Maríu Snorradóttur að hafi verið pantaður matur á fyrstu hæðina þá setji kokkurinn ofn á hjólaborði fram í matsalinn sem unnt sé að nota til að hita mat.

Það er mat dómsins að sú aðstaða sem lýst hefur verið og stefnanda stendur til boða fullnægi ekki því að geta talist vera matstofa þar sem hægt er að bera fram heitan eða kaldan mat, aðfluttan eða eldaðan á staðnum, hvorki í skilningi tilvitnaðra ákvæða kjarasamnings aðila málsins, né heldur samkvæmt almennum málskilningi. Þá mælir það gegn skilningi stefnda að um var að ræða breytingu frá fyrra fyrirkomulagi þegar eldhús var opið fram á kvöld eftir því sem fram kom í málinu.

Verður því að líta svo á að matstofa sé ekki opin þegar stefnandi er við störf á þeim tímum sem nánar greinir í dómkröfum stefnanda og hafi því borið að greiða henni fæðispeninga samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum kjarasamningsins.  Með því að stefndi hefur ekki gert það verður að telja að stefndi hafi brotið gegn umræddri grein 3.4.3 í kjarasamningi aðila og ber að fallast á viðurkenningarkröfu hans.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar, skv. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 og þykir hann hæfilegur kr. 250.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

D ó m s o r ð:

Viðurkennt er að Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hafi brotið gegn gr. 3.4.3 í kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs með gildistíma 11. maí 2011 til 31. mars 2014, sbr. samkomulag dags. 4. júní 2011 um breytingar og framlengingu á kjarasamningi, með því að hafa ekki greitt Fjólu Ingimundardóttur, kt. 190859-4529, hjúkrunarfræðingi hjá stefnda, fæðispeninga þegar Fjóla var á vakt en matstofa vinnustaðar ekki opin, frá og með 1. mars 2012.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, kr. 250.000 í málskostnað.

 

Sigurður G. Gíslason

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Inga Björg Hjaltadóttir

Elín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira