Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Athugasemdir ESA í góðu samræmi við frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra og tillögur Fjárfestingarvaktarinnar

ESA
ESA

Vinna við endurskoðun á lögum nr. 34/1991 um erlenda fjárfestingu er á góðu skriði og er markmiðið að úrbæturnar auki samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að beinni erlendri fjárfestingu. Er þessi vinna í góðu samræmi við athugasemdir ESA eftirlitsstofnunar EFTA. 

ESA gaf í gær út fréttatilkynningu þar sem fram kemur að tilkynningarskylda á alla erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri samkvæmt lögum, um erlenda fjárfestingu, nr. 34/1991 fari gegn ákvæðum EES samningsins. Þetta er niðurstaða rökstudds álits eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem er lokaviðvörun áður en mál fer fyrir EFTA-dómstólin.

Ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála ákvað fyrir nokkru að taka lög, um erlenda fjárfestingu nr. 34/1991, til heildstæðrar endurskoðunar. Til stendur að fara gaumgæfilega yfir framkvæmd laganna, mögulega ágalla og atriði sem telja má þörf á að skýra nánar. 

Í júní 2013 skilaði Fjárfestingarvaktin tillögum til ráðherra um úrbætur á samkeppnishæfni Íslands varðandi beina erlenda fjárfestingu. Fjárfestingarvaktin lagði til að lögin verði endurskoðuð í heild sinni því umhverfið hafi breyst umtalsvert frá því að lögin tóku gildi. Þá snúist þau fyrst og fremst um boð og bönn en betra sé að þau hafi jákvæðari tón og að þá mætti gera takmarkanir skýrari.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipaði starfshóp, 8. janúar sl., til að endurskoða lög nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Auk iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eru fjármála- og efnahagsráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, utanríkisráðherra og innanríkisráðherra með fulltrúa í hópnum. Hlutverk þessa hóps er að endurskoða lögin í heild sinni. Starfshópurinn hefur nú þegar samið breytingarlög til að bregðast við rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Sú frumvarpsvinna er á lokastigum og reiknað er með að breytingarlögin fari í þinglega meðferð fljótlega. Starfshópurinn mun svo vinna áfram að heildarendurskoðun laganna.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta