Iðnaðarráðherra heimsækir fyrirtæki á Grundartanga og spennusetur nýtt launaflsvirki Landsnets
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra brá sér þingmannaleið í gær og kynnti sér umsvifamikinn rekstur Norðuráls, járnblendiverksmiðju Elkem og stálendurvinnslu GMR. Heimsókninni lauk síðan á því að hún spennusetti nýtt launaflsvirki Landsnets en það bætir verulega rekstur raforkuflutningskerfis Landsnets, eykur afhendingaröryggi og gerir Landsneti kleift að flytja meiri orku inn á Grundartangasvæðið.
Fyrsti viðkomustaðurinn var Norðurál og þar tóku Ragnar Guðmundsson forstjóri og hans fólk vel á móti ráðherra. Eftir góðan hádegisverð í mötuneyti starfsmanna (lauksúpan var hreint afbragð!) var tekin skoðunarferð um álverið en þar eru framleidd tæp 300 þúsund tonn af áli og til framleiðslunnar eru notaðar um 4.300 GWst, eða tæpur fjórðungur alls rafmagns sem framleitt er á Íslandi. Í álverinu starfa um 600 manns og ríflega þúsund til viðbótar hafa atvinnu af þjónustu sem tengist starfseminni með beinum hætti – flutningum, framkvæmdum, tækniþjónustu, birgðaöflun og fleiru.
Næsti viðkomustaður var Járnblendiverksmiðja
Elkem á Íslandi. Einar Þorsteinsson forstjóri kynnti starfsemina fyrir ráðherra og ráðuneytisfólki og fór jafnframt yfir þau helstu tækifæri og ógnanir sem blasa við. Verksmiðjan var gangsett árið 1979 og er framleiðslugeta hennar nú um 120 þúsund tonn af hágæða kísiljárni.
Arthur Garðar Guðmundsson og Eyþór Arnalds tóku á móti ráðherra í Stálendurvinnslu GMR en hún tók til starfa á síðasta ári og gengur framleiðslan út á að hreinsa stál sem fellur til hjá álverunum svo að hægt sé að nýta það aftur innan þeirra. Svokallaðir straumteinar og tindaefni, sem áður fyrr var flutt út, er nú endurunnið hjá GMR og er þetta í reynd umhverfisvæn og gjaldeyrissparandi endurvinnsla. Jafnframt eru ýmsir möguleikar til staðar sem verið er að kanna og má þar t.d. nefna endurvinnslu á skipsskrokkum.
Grundartangaheimsókninni lauk síðan á Klafastöðum en þar hefur Landsnet reist launaflsvirki sem ráðherra gangsetti formlega. Þetta er stærsta einstaka verkefni Landsnets á liðnum árum og nam heildarkostnaður rúmum tveimur milljörðum króna. Launaflsvirkið bætir verulega rekstur raforkuflutningskerfis Landsnets, eykur afhendingaröryggi og gerir Landsneti kleift að flytja meiri orku inn á Grundartangasvæðið.
Uppsetning launaflsvirkisins er fyrsta skrefið í

endurskipulagningu orkuafhendingar Landsnets á Grundartanga og með tilkomu
þess er mögulegt að auka flutning eftir núverandi línum. Orkuflutningsgetan eykst umtalsvert til svæðisins sem er í takt við þau uppbyggingaráform og skipulagsbreytingar sem bæði Faxaflóahafnir og Hvalfjarðarsveit hafa unnið að á Grundartanga. Í framtíðinni
mun virkið stækka og afhending orku til notenda verða möguleg frá tveimur stöðum á svæðinu. Þannig minnkar mikilvægi spennistöðvarinnar á Brennimel við þessa ráðstöfun en afhendingaröryggi eykst.
Launaflsvirkið bætir einnig verulega spennustýringu flutningskerfisins og verður Landsnet mun betur í stakk búið til að bregðast við snöggum álagsbreytingum og áhrifum truflana í kerfinu með virkri spennustýringu. Þetta mun jafnframt bæta spennugæðin umtalsvert í kerfinu og ættu notendur um allt land að nóta góðs af því.