Málsmeðferð ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara
Í kjölfar ákvörðunar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að synja beiðni um viðbótartollkvóta fyrir ákveðna osta og lífrænan kjúkling hefur komið fram gagnrýni á málsmeðferð ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Ráðuneytið telur málsmeðferð nefndarinnar í samræmi við gildandi lög.
Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara starfar samkvæmt 87. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Nefndin gerir meðal annars tillögur til ráðherra um úthlutun tollkvóta. Áður en nefndin gerir slíka tillögu skal hún senda drög að tillögunni til Bændasamtaka Íslands, Félags atvinnurekenda, Samtaka verslunar og þjónustu og Neytendasamtakanna. Ávallt er leitað umsagnar þessara aðila áður en tillögur eru gerðar til ráðherra um úthlutun tollkvóta. Ef nefndin hinsvegar ákveður að gera ekki slíka tillögu þá ber nefndinni ekki að senda slíka ákvörðun til umsagnaraðila. Málinu lýkur þá með afgreiðslu nefndarinnar. Ef nefndinni berst beiðni um viðbótartollkvóta og erindinu er synjað er ekki skylt að leita umsagna nefndra aðila um þá niðurstöðu. Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið málsmeðferð nefndarinnar í samræmi við ákvæði laganna.