Nýr árangursstjórnunarsamningur við Nýsköpunarmiðstöð byggir á skýrri sýn og miklum metnaði
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar og viðskiptaráðherra og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands gengu í dag frá árangursstjórnunarsamningi til ársins 2018 sem byggir á nýlegri stefnumörkun varðandi stuðning við frumkvöðla og fyrirtæki og áherslu í rannsóknum og tækniþróun. Í samningnum eru sett fram skilgreind og vel mælanleg markmið þannig að kúrsinn er bæði skýr og klár.
Meðal helstu áhersluatriða í stuðningi við frumkvöðla og fyrirtæki má nefna:
- Skapandi greinar verða sérstakt áhersluefni á tímabilinu. Stefnt er að opnun Seturs skapandi greina við Hlemm. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja fjárfestatengsl skapandi greina og að auka faglega aðstoð við markaðssetningu erlendis.
- Tilvísunarkerfi verður komið á fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Um er að ræða svokallað „voucherkerfi“ á vinnuframlag sérfræðinga og aðgengi að tækjakosti Nýsköpunarmiðstöðvar.
- Í þágu þróunarstarfs, tæknilæsis og skapandi náms á öllum skólastigum verður ný FabLab smiðja opnuð í Reykjavík og unnin verður þróunaráætlun fyrir kennsluþróun í verknámi og tæknilæsi sem nýtir möguleika Fab Lab smiðja til skapandi náms í samstarfi við framhaldsskóla á starfssvæðum sínum.
- Sérstök áhersla verður á miðlun þekkingar á sviði uppbyggingar, stjórnunar og reksturs klasasamstarfs. Áætlun um stuðning stofnunarinnar við klasamstarf liggi fyrir ekki síðar en í desember 2014.
Helstu áherslur í þjónustu við atvinnulíf eru eftirfarandi:
- Skilvirkara stuðningsumhverfi er forgangsverkefni.
- Einföldun rekstarumhverfis fyrirtækja og frumkvöðla
- Einfaldara þjónustuviðmót og rafrænar lausnir
- Aðgerðir til aukinnar sóknar í alþjóðlega samkeppnissjóði
- Leiðarljós: Samfélagsleg ábyrgð og lífsgæði
Á sviði rannsókna og tækni eru helstu áherslur eftirfarandi:
- Öndvegissetur í steinsteypu og umhverfisverkfræði verður þróað áfram með áherslu á umhverfisvæna steinsteypu, seigju-/flotfræði, efnarannsóknir og nýsköpun tengda eiginleikum steinsteypu.
- Öndvegissetur lághitaorku verður sett upp á samningstímanum í samvinnu við hagsmunaaðila. Því er ætlað að spara útgjöld hins opinbera til niðurgreiðslna húshitunar á köldum svæðum.
- „Framtíðarhúsið“ er nýtt áherslusvið um betri orkunýtingu, gæði innivistar og byggingarannsóknir á norðlægum slóðum.
- Þá verður sú breyting á þjónusturannsóknum að NMÍ mun draga sig út af samkeppnismarkaði þ.a. ekki verða stundaðar þjónusturannsóknir á sviðum þar sem tveir eða fleiri innlendir aðilar eru fyrir á markaði.
