Hoppa yfir valmynd
4. mars 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Samingur um eflingu söguferðaþjónustu 

Undirskrift samnings um söguferðaþjónustu
Undirskrift samnings um söguferðaþjónustu

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ferðamála og Rögnvaldur Guðmundsson formaður Samtaka um söguferðaþjónustu (SSF) skrifuðu föstudaginn undir saming um eflingu söguferðaþjónustu á Íslandi. Undirritunin fór fram í Víkingaheimum í Reykjanesbæ i tengslum við félagafund og málþing samtakanna. Vitundarvottar að samningnum voru þau Árni Sigrússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Sara Regína Valdimarsdóttir ritari SSF og fulltrúi Sturlungaslóðar í Skagafirði. Ráðuneytið mun styrkja samtökin um 3 milljónir króna 2014 til að vinna að þessu verkefni og verður árangur metinn í árslok. 

Í samningnum segir m.a:

"Meginmarkmið samstarfsins er að vinna að frekari uppbyggingu og þróun söguferðaþjónustu um land allt þar sem leitast verður við að auka upplifun ferðamanna og afþreyingu sem byggir á menningararfi. Unnið verður að stækkun og eflingu samtakanna, m.a. til að treysta samstarfsvettvang ólíkra aðila, s.s. safna og setra, sem miðla menningararfi til ferðamanna og til að tryggja aðkomu söguferðaþjónustu (heritage tourism) að stefnumörkun og þróunarstarfi í ferðaþjónustu. Stuðlað verður að lengingu opnunartíma í samvinnu við „Ísland allt árið“, aukinni fagmennsku og gerð heildstæðra ferðapakka."

Samtök um söguferðaþjónustu voru stofnuð árið 2006 af 18 aðilum í söguferðaþjónustu og hafa hingað til einbeitt sér að tímabilinu frá landnámi til siðaskiptanna um 1550.  Nú eru félagar orðnir yfir 90 um allt land. Nýverið var ákveðið að stækka samtökin þannig að allir sem eru að vinna að með sögu svæða eða staða í ferðaþjónustu geta orðið fullgildir aðilar, óháð þeim tíma sem unnið er með, jafnt sagnafólk og aðilar í sögulegu handverki.  Þá getur áhugafólk, fræðimenn, ferðaskrifstofur o.fl. fengið aukaaðild að samtökunum. 


Undirskrift samnings um söguferðaþjónustu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta