Hoppa yfir valmynd
5. mars 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Ekki tókst að ljúka samningi í makríldeilunni

Makrílveiðar
Makrílveiðar

Fundi strandríkjanna í makríldeilunni lauk í kvöld án samkomulags.  Með fundinum var ætlað að reyna til þrautar að ná samkomulagi um skiptingu veiðiheimilda í makríl. „Fullreynt er að samningur náist á þeim grundvelli sem lá fyrir milli Íslands og ESB í haust“ segir Sigurður Ingi sjávarútvegsráðherra. 

Ísland hefur tekið þátt í viðræðum strandríkja um skiptingu makrílstofnsins síðan árið 2010. Ekki hefur tekist á þessum árum að ná samkomulagi um stjórnun og skiptingu veiðanna milli strandríkjanna sem eru auk Íslands - Noregur, Færeyjar og ESB.

Um þessa niðurstöðu segir Sigurður Ingi: „Það er mikil synd að ekki hafi tekist að ljúka samningi, tækifærið var svo sannarlega til staðar eftir mun hærri ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins nú í haust. Hægt hefði verið að semja um veiðar innan marka ráðgjafar án þess að nokkurt ríki hefði þurft að draga úr veiðum sínum.“

Í haust lá fyrir samkomulag milli Íslands og ESB um hvernig leysa mætti deiluna. Um það segir Sigurður Ingi: „Grunnur þess samkomulags byggðist á sjálfbærum veiðum og tiltekinni hlutdeild Íslands. Evrópusambandið tók að sér að fylgja málinu eftir gagnvart Noregi. Norðmenn hafa því miður komið í veg fyrir að þetta samkomulag næði fram að ganga ekki síst með ósveigjanlegri og órökstuddri kröfu um veiðar langt umfram vísindalega ráðgjöf.“

Farið verður yfir stöðuna á næstu dögum og undirbúin ákvörðun um heildarafla íslenskra skipa í makríl á komandi vertíð. „Það er ljóst að viðræðum um stjórn makrílveiða fyrir 2014  er nú lokið“ segir Sigurður Ingi, „við munum áfram leitast við að stuðla að lausn sem byggir á vísindalegum grunni, sjálfbærri nýtingu og sanngjörnum hluta allra strandríkjanna.“ Ráðherrann hvetur enn fremur strandríki til að sýna ábyrgð þegar komi að ákvörðun um veiðar á makríl í ár.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta