Hoppa yfir valmynd
19. mars 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðvörun til almennings um sýndarfé (e. virtual currencies)

Í tilefni af fréttum af fyrirhugaðri úthlutun sýndarfjár til Íslendinga (Auroracoin) vara íslensk stjórnvöld við hugsanlegri áhættu tengdri kaupum, varðveislu á eða viðskiptum með slíkt sýndarfé. Sýndarfé má lýsa sem tilbúnum stafrænum skiptimiðli (e. medium of exchange).
Sýndarfé hefur víða rutt sér til rúms en notkun og viðskipti með það hefur hingað til verið afar takmörkuð hér á landi.

Gildandi lög á Íslandi vernda neytendur ekki gegn tapi á sýndarfé, t.d. ef „markaðstorg“ sem skiptir eða varðveitir sýndarfé bregst skyldum sínum eða ef greiðsla misferst eða kemst í hendur óviðkomandi aðila. Handhafi sýndarfjár á ekki kröfu á útgefanda sambærilega því sem við á um peningaseðla og mynt, rafeyri, innlán og annars konar inneign á greiðslureikningi í skilningi laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Verðgildi  og óhindrað aðgengi að sýndarfé er alls ótryggt frá einum tíma til annars.

Álitaefni tengd sýndarfé hafa snertifleti við lögbundin verkefni ólíkra stjórnsýslustofnana og nánari skýringar og umfjöllun um áhættuþætti því tengdu er að finna á vefsíðum þeirra.

 

Fjármálaeftirlitið  Seðlabanki Íslands  Neytendastofa   
             Fjármála- og efnahagsráðuneytið  Innanríkisráðuneytið


Hlekkir á vefsvæði stjórnsýslustofnana:
Seðlabanki Íslands (fjármálastöðugleiki, fjármálainnviðir og gjaldeyrishöft) 
Fjármálaeftirlitið (greiðsluþjónusta og neytendavernd á fjármálamarkaði, þ. á m. fjárfestavernd)
Neytendastofa (almenn neytendavernd) 
Innanríkisráðuneyti (málefni neytenda)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum