Hoppa yfir valmynd
20. mars 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Sjávarútvegsráðherra vill einfalda reglur og eftirlit með fiskeldi

Fiskeldi
Fiskeldi

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra mælti í gær á Alþingi fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fiskeldi sem miðar að því að einfalda stjórnsýslu, eftirlit og leyfisveitingarferli með greininni. Í frumvarpinu er jafnframt að finna nýmæli um auknar kröfur til búnaðar í sjókvíaeldi með það að markmiði að verja hagsmuni villtra laxastofna. 

Nokkur gagnrýni hefur verið á það að stjórnsýsluferlar tengdir fiskeldi séu langir og flækjustig til trafala. Einnig hefur verið réttilega bent á að eftirlit með ólíkum þáttum tengdu fiskeldi sé á hendi margra stofnanna með tilheyrandi óhagræði, bæði fyrir fyrirtæki og stjórnsýsluna. Með frumvarpinu er leitast við að bregðast við þessari gagnrýni.

Lagt er til að leyfisveitingaferli í fiskeldi verði nú þjónustað og stýrt frá Matvælastofnun í stað þriggja opinberra aðila áður og að leyfi verði afgreidd innan sex mánaða frá umsókn. Verði frumvarpið að lögum mun Matvælastofnun einnig sjá um eftirlit með leyfisskyldri starfsemi og gera þjónustusamninga við aðrar stofnanir þar sem það getur átt við.

Í frumvarpinu er einnig að finna ákvæði um Umhverfissjóð sjókvíaeldis sem verður m.a. nýttur til að gera burðarþolsmat fyrir sjókvíaeldissvæði til að tryggja sem besta nýtingu þeirra en skort hefur á grunnrannsóknir því tengdu. Fjölmörg önnur atriði er að finna í frumvarpinu sem ætlað er að tryggja sem best samspil greinarinnar og umhverfis og byggja undir fiskeldi sem atvinnugrein til framtíðar.

Frumvarpið í heild sinni má lesa hér


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta