Gullkarfaveiðum stjórnað með aflareglu
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að veiðum á gullkarfa í íslenskri fiskveiðilögsögu skuli framvegis stjórnað með aflareglu til fimm ára með endurskoðun á fimmta ári. Þessi ákvörðun er í samræmi við stefnu stjórnvalda um ábyrga fiskveiðistjórnun með sjálfbæra og hagkvæma nýtingu að leiðarljósi. Aflareglan byggir á því að tryggja góðan karfaafla til lengri tíma litið með því að veiða árlega hóflegt hlutfall af stofninum byggt á stofnmati og ráðgjöf vísindamanna.
Þessi ákvörðun er lokaskrefið í löngu ferli. Ferlið byggir á hafrannsóknum og felst í prófun íslenskra vísindamanna á mismunandi aflareglum, vali á útfærslu í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og loks mati Alþjóðahafrannsóknaráðsins á þeirri reglu sem valin er út frá kröfum um sjálfbærni og varúðarleið við stjórn fiskveiða. Að fengnu jákvæðu mati Alþjóðahafrannsóknaráðsins lagði svo ráðherra tillöguna fyrir ríkisstjórn til samþykktar