Samkomulag strandríkja um kolmunna
Gengið hefur verið frá samkomulagi strandríkja um veiðar á kolmunna fyrir árið 2014. Samkomulagið felur í sér að veiðar ársins verða 1,2 milljón lestir en endurskoðun á aflareglu er frestað til haustsins. Hlutur Íslands úr heildarveiðinni er 194.722 lestir.
Einnig hefur verið staðfest samkomulag Íslands, Noregs, Rússlands og Evrópusambandsins um veiðar á norsk-íslenskri síld fyrir árið 2014. Líkt og á síðasta ári eru Færeyingar ekki aðilar að samkomulagi strandríkjanna en hlutur þeirra samkvæmt gildandi skiptingu er tekinn frá. Heildarveiðin verður tæplega 419 þúsund lestir og er hlutur Íslands alls 60.722 lestir.
Kolmunnastofninn hefur vaxið undanfarin þrjú ár og aflaheimildir sömuleiðis. Norsk-íslenska síldin er hins vegar í mikilli niðursveiflu, nýliðunarbrestur er viðvarandi og hafa aflaheimildir því skerst verulega á síðustu fimm árum.
Á komandi hausti hefjast nýir samningar milli strandríkjanna um skiptingu í báðum stofnunum.