Fundur milli Íslands og Grænlands um samvinnu þjóðanna á sviði fiskveiða
Þann 29. mars 2014 var undirritaður í Reykjavík árlegur samstarfssamningur milli Íslands og Grænlands á sviði fiskveiða. Þetta er annar samningur slíkrar gerðar og til marks um að samvinna okkar við næsta nágranna okkar í vestri er stöðugt að aukast.
Umfjöllunarefni fundarins voru fyrst og fremst fiskistofnar þar sem hagsmunir beggja ríkja fara saman. Vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun og grænlenskri systurstofnun gerðu grein fyrir stöðu mála. Vegna hlýnunar eru ýmsar aðstæður í hafinu að breytast og á það ekki hvað síst við í hafinu milli Grænlands og Íslands. Nýir stofnar hafa flust á svæðið en stofnar sem þar voru fyrir hafa sumir látið undan síga. Jafnframt var rætt um ýmis mál er snúa að eftirliti og samvinnu ríkjanna á alþjóðavettvangi hvað varðar fiskveiðar. Sú samvinna hefur einnig styrkst undanfarin ár.
Ákveðið var að vinna næsta stig í samning ríkjanna um grálúðu í kjölfar þess að Alþjóðahafrannsóknaráðið(ICES) hefur metið að tiltækar séu aðferðir sem gera kleyft að þróa áfram og vinna stjórnunaráætlun fyrir veiðar á þessari verðmætu fisktegund.
Samþykkt var að boða til fundar strandríkja er hefði að markmiði að undirrita samning um veiðar á gullkarfa.
Neðri stofn úthafskarfa á Reykjaneshrygg á mjög undir högg að sækja. Samningur er um þessar veiðar en eitt ríki er utan hans og veiðir meira en öll hin ríkin til samans sem gerir það að verkum að þær eru miklu meiri en sem nemur ráðgjöf. Sá möguleiki er í stöðunni að ráðgjöf um veiðar lækki enn og verði jafnvel „engin veiði“. Strandríkin tvö Ísland og Grænland, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta, bundust fastmælum um að standa saman um málefni úthafskarfa.
Miklar breytingar hafa orðið i útbreiðslu loðnu og það hvernig loðnan hagar sér. Nýliðin loðnuvertíð ber þess rækilega vitni. Ræddu ríkin almennt um framtíð núgildandi loðnusamnings milli Íslands, Grænlands og Noregs.
Grænlendingar gerðu grein fyrir áformum sínum um uppbyggingu þorskstofnsins eða stofnana við Grænland. Þessir stofnar hafa verið í mikilli lægð en greinilegt að Grænlendingar ætla sér, á grundvelli vísindalegrar þekkingar, að ná að gera þorskveiðar á ný að miklum verðmætum.
Grænlendingar hafa um langt árabil verið háðir notkun á íslenskum höfnum vegna nýtingar fiskistofna við austur Grænland. Ákveðið var að landanir grænlenskra skipa á makríl tækju mið af sama magni og landað var af Grænlandsmiðum á síðasta ári.
Í lok fundar var undirritaður nýr fiskveiðisamningur um Dhornbanka rækju sem er sameiginlegur stofn á svæðinu norður og vestur af Vestfjörðum. Ákveðið var að Grænlendingar geti veitt 350 tonn Íslandsmegin og Íslendingar 350 Grænlandsmegin línu til að byrja með, en ráðgjöf um veiðar á þessum stofni er aðeins um 2.000 tonn.
Fram kom að Hafrannsóknastofnun mun stunda rannsóknir á makríl næsta sumar við Grænland líkt og gert var s.l. sumar. Gert er ráð fyrir að verkefnið aukist verulega og verði allt að 12 dögum rannsóknaskips varið til þessar rannsókna.
Að lokum komu fram þau ánægjulegu tíðindi að í undirbúining er að Hafrannsóknastofnun og systurstofnun hennar á Grænlandi undirriti fljótlega samning um nánara samstarf þessar stofnana.