Hoppa yfir valmynd
31. mars 2014 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Jákvæð áhrif stuttmyndarinnar Fáðu já

Meirihluti stráka og stelpna  finnst þau skilja betur en áður hvað það þýðir að fá samþykki fyrir kynlífi 

Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi hefur í samvinnu við SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni látið kanna áhorf unglinga í 10. bekk á myndinni Fáðu já. Auk þess voru könnuð áhrif myndarinnar og viðhorf unglinganna til hennar. 

Nemendur í 10. bekk allra grunnskóla á landinu og allir framhaldsskólanemar fengu sýningu á stuttmyndinni Fáðu já í janúar 2013.  Myndinni er ætlað að skýra mörkin á milli kynlífs og ofbeldis, vega upp á móti áhrifum klámvæðingar, brjóta ranghugmyndir á bak aftur og innræta sjálfsvirðingu í nánum samskiptum.

Niðurstöður könnunarinnar sýndu að nær allir unglingar í 10. bekk höfðu séð myndina Fáðu já, eða um 95%, og fannst flestum myndin vera áhugaverð. Tveir af hverjum þremur strákum og stelpum (66,0%) finnst þau skilja betur en áður hver munurinn er á kynlífi í raunveruleikanum og kynlífi sem sýnt er í kvikmyndum eða klámi eftir að hafa horft á myndina Fáðu já.

Meirihluti stráka og stelpna (70,4%) finnst þau skilja betur en áður hvað það þýðir að fá samþykki fyrir kynlífi eftir að þau höfðu horft á myndina Fáðu já. Það vakti sérstaka ánægju að tæplega helmingur unglinga (44,1%) telja það vera auðveldara að tala um kynlíf við þann sem þá langar að stunda kynlíf með en áður en þau sáu myndina Fáðu já, eða 58% stráka og 34% stelpna. En eitt af markmiðum myndarinnar var að hvetja ungt fólk til að eiga samskipti um kynlíf og fá já áður en kynlíf er stundað. Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi telur niðurstöðurnar mjög jákvæðar og ýta undir mikilvægi þess að ungt fólk fái fræðslu um mörkin milli kynlífs og ofbeldis.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira