Hoppa yfir valmynd
31. mars 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Samstarfsáætlun Þróunarsjóðs EFTA á sviði jarðvarma á Azoreyjum kynnt

Ragnheiður Elín Árnadóttir og Vasco Alves Cordeiro
Ragnheiður Elín Árnadóttir og Vasco Alves Cordeiro

Í gær var samstarfsáætlun Þróunarsjóðs EFTA á sviði jarðvarma á Azoreyjum kynnt. Af því tilefni ávarpaði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra ráðstefnu sem haldin var á eynni Terceira á Azoreyjum. Með ráðherra í för voru fulltrúar frá Þróunarsjóðnum, Orkustofnun, Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Mannviti, Eflu, Verkís, Green Energy Group og Ísor og kynntu íslensku fyrirtækin starfsemi sína á ráðstefnunni.

Ráðherra átti auk þess fund með forseta heimastjórnar Azoreyja, Vasco Alves Cordeiro, þar sem rætt var um möguleika til vinnslu jarðvarma á Azoreyjum og um reynslu Íslendinga síðustu áratugi á því sviði. Auk þess var rætt um hugmyndir heimamanna um að nýta jarðhita til fiskeldis og lýstu þeir yfir miklum áhuga á samstarfi við Íslendinga á því sviði.

Einnig fundaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra með aðstoðarorkumálaráðherra Portúgal, Artur Trindade, um mögulega samvinnu ríkjanna tveggja á sviði orkumála, meðal annars með aðkomu Þróunarsjóðs EFTA.

Þróunarsjóðurinn er fjármagnaður af Íslandi, Noregi og Lichtenstein og styrkir sjóðurinn ýmis verkefni í þeim aðildarríkjum ESB sem lakar standa í efnahagslegu tilliti. Styrkþegaríki sjóðsins eru því öll í Suður- og Austur-Evrópu.

Orkustofnun fer með umsjón verkefna á sviði jarðhita sem fjármögnuð eru af sjóðnum. Með verkefninu er bæði stuðlað að aukinni nýtingu innlendrar hreinnar orku og jafnframt dregið úr notkun innflutts jarðefnaeldsneytis. Jarðhitanýting á Azoreyjum er mikilvæg viðbót við sjálfbæra raforkuvinnslu eyjanna með vindorku.

Nánar um þróunarsjóð EFTA



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta