Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vaxandi starfsemi frístundaheimila

Stjórnendur sveitarfélaga óska eftir að sett verði skýr opinber viðmið um rekstur frístundaheimila og að mótaður verði miðlægur rammi um starfsemi þeirra

Niðurstöður nýrrar könnunar á starfsemi frístundaheimila fyrir nemendur á grunnskólaaldri sýna að starfsemi frístundaheimila fer vaxandi innan sveitarfélaga landsins. Nú segja 92% svarenda að boðið sé upp á slíka þjónustu miðað við 75% árið 2009 og þátttaka barna hefur aukist verulega.  Umfang og skipulag þjónustunnar tekur mið af stærð og gerð hvers sveitarfélags. Þörf fyrir frístundaheimili tekur meðal annars mið af samfélagsgerð og fjölda íbúa á hverju svæði.

Stjórnendur sveitarfélaga líta í auknum mæli á rekstur frístundaheimila sem grunnþjónustu í samfélaginu og meirihluti þeirra (66%) óskar eftir því að sett verði skýr, opinber viðmið um slíkan rekstur og að mótaður verði miðlægur opinber rammi um starfsemi þeirra.

Starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis  um  málefni frístundaheimila (lengda viðveru) fyrir nemendur á grunnskólaaldri  var falið að skoða hvort þörf sé á að kveða með skýrari hætti í löggjöf um starfsemi frístundaheimila fyrir nemendur á grunnskólaaldri. Með frístundaheimili er átt við þá dvöl utan skólatíma sem mörg sveitarfélög bjóða upp á, aðallega fyrir nemendur í 1.-4. bekk grunnskóla, og gengur m.a. undir heitunum lengd viðvera, frístundaheimili, frístundaskóli, dægradvöl, tómstundaheimili eða skóladagvist.  Að frumkvæði starfshópsins var ákveðið að kanna stöðuna hjá sveitarfélögum og stöðu þeirra. Könnunin var framkvæmd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og skýrsla um könnunina liggur nú fyrir sem Kolbrún Þ. Pálsdóttir lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands vann fyrir starfshópinn. Sambærileg könnun var gerð árið 2009 af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka áhugafólks um skólaþróun.  Könnunin var send rafrænt til allra 74 sveitarfélaga landsins í nóvember 2013 og óskað eftir að yfirmaður þeirrar deildar sem ber ábyrgð á rekstri frístundaheimila svaraði könnuninni. Svör bárust frá 50 sveitarfélögum og var svarhlutfall því 68%. Í þessum 50 sveitarfélögum sem svöruðu könnuninni bjó 95% landsmanna árið 2013. Því gefur könnunin raunsanna og heildstæða mynd af þeirri þjónustu sem stendur íslenskum barnafjölskyldum til boða.

Niðurstöður sýna að meirihluti sveitarfélaga  sem svöruðu eða 70% samþætta skóla- og frístundastarf. Í spurningunni var samþætting skilgreind á eftirfarandi hátt: Með samþættingu er átt við að samstarf sé milli skóla og frístundaheimila um skipulag dagsins með þarfir barna að leiðarljósi.  Í 91% sveitarfélaga sem svöruðu geta börn sótt annað íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf utan frístundaheimilis á þeim tíma sem frístundaheimilið er opið.

Könnunin bendir til þess að börn dvelji í auknum mæli á frístundaheimilum, ekki síst í ljósi þess að tæplega 70% 6-9 ára barna stendur til boða heilsdagsdvöl á starfsdögum skóla. Að auki stendur um18 % 6-9 ára barna til boða heilsdagsdvöl í vetrarfríum, og um helmingi 6-9 ára barna stendur til boða heilsdagsdvöl á sumrin í sínu sveitarfélagi. Þrátt fyrir aukin umsvif og aukna þátttöku barna virðast sveitarfélög á undanförnum árum ekki hafa aukið kröfur sínar um fagmenntun stjórnenda og starfsfólks í frístundaheimilum.

Samkvæmt svörum virðist unnið eftir eineltisáætlun í frístundaheimilum í yfirgnæfandi meirihluta sveitarfélaga, eða um 98%. Að sama skapi var stefna um jafnréttisáætlun til staðar í 83% sveitarfélaga. Móttökuáætlun vegna barna af erlendum uppruna var til staðar í 71% sveitarfélaga og stefna um foreldrasamstarf í 50% sveitarfélaga. Í svörum kom alloft fram að starfsemi frístundaheimila taki mið af stefnumótun skóla, og því sé ekki mótuð sérstök stefna vegna frístundastarfsins.

Könnunina í heild má lesa hér.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira