Ragnheiður Elín Árnadóttir fundaði í París
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra var í París í upphafi vikunnar. Ráðherra átti þar fundi með tveimur frönskum ráðherrum þar sem m.a. voru rædd orkumál og málefni tengd atvinnusköpun og fjárfestingu. Auk þess hélt hún ræðu á aðalfundi Fransk-íslenska viðskiptaráðsins og ráðstefnu á þess vegum um nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Þá féll það í hennar skaut að opna sýningu á listaverkum ERRÓ í höfuðstöðvum UNESCO.
Á mánudeginum ávarpaði Ragnheiður Elín aðalfund Fransk-íslenska viðskiptaráðsins sem fram fór í bústað sendiherra Íslands í París. Jafnframt fundaði hún með með Ségolène Royale, ráðherra sjálfbærrar þróunar, vistkerfa og orkumála í Frakklandi. Á fundinum ræddu ráðherrarnir um mögulegt samstarf Íslands og Frakklands á sviði orkumála, sérstaklega á sviði jarðhitamála. Auk þess voru orkumál almennt, í löndunum tveimur, rædd. Ragnheiður Elín bauð franska ráðherranum að heimsækja Ísland til að kynna sér hvernig Íslendingar hagnýta endurnýjanlegar orkuauðlindir landsins.
Fyrr um morguninn átti Ragnheiður Elín tvo fundi með fulltrúum Efnahags- og framfarastofnunar OECD, sem Ísland á aðild að ásamt 33 öðrum löndum. Ráðherra fundaði með sérfræðingum á sviði nýsköpunar, sprotafyrirtækja, ferðamála, samkeppnismála og erlendrar fjárfestingar.
Á þriðjudeginum átti Ragnheiður Elín fund með Axelle Lemaire, aðstoðarráðherra í atvinnuvega- og efnahagsráðuneyti Frakklands sem fer með upplýsingatækni- og nýsköpunarmál. Á fundinum ræddu þær um starfsumhverfi atvinnusköpunar, fjárfestingaumhverfi í löndunum tveimur ásamt málum tengdum umhverfi sprotafyrirtækja. Lemaire sat í stjórn Íslandsvinafélags franska þingsins og var þingmaður Frakka í Norður-Evrópu, þar á meðal Frakka sem búsettir eru á Íslandi. Hún heimsótti Ísland með Íslandsvinafélagi franska þingsins síðastliðið haust.
Ráðherra fundaði einnig með Lionel Tardy, þingmanni og núverandi formanni Íslandsvinafélags franska þingsins í franska þinginu og ávarpaði að honum loknum ráðstefnu á vegum Fransk-íslenska viðskiptaráðsins sem fram fór í franska þjóðþinginu. Ráðstefnan var um nýsköpun undir yfirskriftinni „Discover Innovative Iceland“. Sérstök áhersla var lögð á ferðamál, kvikmyndaiðnað og sprotafyrirtæki á sviði heilbrigðis- og upplýsingatækni á Íslandi. Á ráðstefnunni kynntu jafnframt níu fulltrúar Íslands og íslensk fyrirtæki vörur sínar.
Heimsókn ráðherra lauk með því að hún opnaði sýningu á verkum ERRÓ í höfuðstöðvum UNESCO á þriðjudagskvöld.