Hoppa yfir valmynd
5. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Safnahúsið fær aftur sitt gamla heiti

Safnahúsið
Safnahúsið

Safnahúsið við Hverfisgötu, áður Þjóðmenningarhúsið, hefur nú fengið sitt gamla nafn aftur. Breytingin er gerð í samræmi við ákvörðun forsætisráðherra um að heimila Þjóðminjasafninu að taka aftur upp hið fyrra heiti, það er Safnahúsið við Hverfisgötu/Arnarhól.

Um þessar mundir er unnið að grunnsýningu um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf sem fyrirhugað er að opnuð verði í Safnahúsinu haustið 2014. Það er í anda samstarfs nokkurra stofnana sem að sýningunni standa að nafnbreytingin á sér stað nú. Stofnanirnar eru Þjóðminjasafn Íslands, sem sér um rekstur hússins, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Sýningarstjóri nýrrar grunnsýningar Safnahússins er Markús Þór Andrésson en valinn hluti safnkosts áðurnefndra menningarstofnana verður til sýnis, frá elstu varðveittu heimildum til dagsins í dag. Samstarf þessara stofnana býður upp á einstakt tækifæri til að skoða arfleifðina í nýju samhengi og varpa ljósi á ósagða sögu með nýstárlegum hætti. Markmið aðstandenda sýningarinnar er að ná sérstaklega til skólafólks og fjölskyldna en um leið til ferðamanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum